Hjúkrunarheimili á Akureyri: Óþolandi staða
Í vetur var 20 rýmum lokað á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri vegna endurbóta. Nú stefnir í frekari lokun rýma, jafnvel 10 rýma til viðbótar og útlit fyrir margra mánaða töfum á framkvæmdum með tilheyrandi álagi á allt kerfið. Bent hefur verið á að tafirnar megi rekja til þess að ríkið og Akureyrarbær hafi ekki komið sér saman um kostnaðarskiptingu verkefnisins. Það virðist vera rétt. Ekki liggur fyrir samkomulag um framtíðareignarhald á Hlíð né nýtingu á því húsnæði sveitarfélagsins fyrir öldrunarþjónustu. Þar sem slíkt samkomulag liggur ekki fyrir hefur Akureyrarbær upp á síðkastið hafnað að greiða reikninga vegna endurbótanna. Sú ákvörðun var ekki tekin af okkur sem sitjum í minnihluta bæjarstjórnar og reyndar tekin án okkar vitneskju.