Í upphaf árs; samfélag tækifæra

Hjálmar Bogi Hafliðason skrifar

Hjálmar

Framtíðin gerist ekki af sjálfu sér. Við mótum hana. Eitt er víst að breytingar eiga sér ekki stað í aðgerðarleysi. Það kallar á samtal, samstöðu og kjark til að taka ákvarðanir. Hvert er þitt framlag í að móta þessa framtíð? Að skapa tækifæri fyrir komandi kynslóðir, bregðast við áskorunum, nýta auðlindir, laða að fólk og fjárfestingar, styrkja samstöðu, byggja upp traust og stuðla að jákvæðni.

Börn og ungmenni

Í fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir ráðdeild í rekstri, eflingu grunnþjónustu og forgangsraða í þágu barna og ungmenna. Nýtt húsnæði fyrir félagsmiðstöð og frístundaþjónustu verður boðið út með hækkandi sól. Starfshópur mun skila niðurstöðu um leikskólaþjónustu til framtíðar, hvar og hvernig henni verður best fyrir komið. Í framhaldi þarf að huga að uppbyggingu íþróttamannvirkja og aðstöðu fyrir menningarviðburði. Til stendur að byggja upp stúku á PCC vellinum og skipta um gervigras sem mun gjörbylta íþróttaiðkun og keppnishaldi á vellinum. Unnið verður að hönnun og útboði vegna endurnýjunar sundlaugar í Lundi.

Það hyllir undir raunverulegan framgang í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík en unnið er að því að koma verkefninu í útboðsferli.

Stóra myndin sem sameinar

Til að standa undir velferðinni og uppbyggingunni þarf að auka tekjur og einn helsti tekjustofn sveitarfélaga er að fjölga fólki. Í hvernig samfélagi vill fólk búa? Vinna, vöxtur og velferð. Góð kjörorð sem eiga alltaf við. Fólk þarf atvinnu til að skapa tekjur. Nýlega var iðnaðarfyrirtæki úthlutað lóð á Bakka og áfram unnið að því að byggja upp þetta iðnaðarsvæði. Áhugaverð verkefni eru til skoðunar og verði þau að veruleika mun það styrkja og treysta iðnaðarsvæðið á Bakka í sessi til framtíðar. Því samhliða þurfum við að treysta innviði eins og orkuöflun og heitt vatn. Áfram verður borað eftir heitu vatni til hverskonar nýtingar og unnið að því að koma hitaveitu á iðnaðarsvæðið á Bakka. Skynsamleg nýting auðlinda er lykill að sjálfbærri uppbyggingu og velsæld samfélaga. Hvort sem um ræðir náttúruauðlindir; fiskimið og sjávargróður, vindinn, jörðina sjálfa og landið eða mannauðinn og nýsköpun með langtímahugsun og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Sameinumst um stóru myndina en látum ekki litlu myndina sundra okkur.

Nýting auðlinda

Þeista

Til stendur að stækka virkjunina á Þeistareykjum, Landsvirkjun kannar nýtingu vindauðlindarinnar í Krubbsfjallsmóum, áform eru um vindorkuver á Hólaheiði, uppbygging á fiskeldi hefur verið gríðarlega mikil í og við Öxarfjörðinn, eitt stærsta sauðfjársláturhús landsins er staðsett við Húsavík, GPG seafood hefur styrkt stöðu sína í sjávarútvegi og áform eru uppi um nýtingu stórþara við strendur Norðurlands. Ferðaþjónustan er sterk og vaxandi stoð í atvinnulífi Norðurþings og verður það áfram enda sveitarfélagið ríkt af kunnum náttúruperlum. Að nýta auðlindir til að skapa störf, styrkja grunninn, stunda nýsköpun sem skilur eftir bæði tekjur og þekkingu.

Tækifæri í myrkrinu?

Áhersla er lögð á uppbyggingu Heimskautsgerðisins til að styrkja innviði ferðaþjónustu á svæðinu. Heilsársferðaþjónusta og góðar samgöngur þurfa að fara saman hvort sem um ræðir þjónusta á Dettifossvegi eða að hverskonar þjónustuseglar séu aðgengilegir og opnir bæði heimafólki og gestum. Það eru mikil tækifæri til áframhaldandi áfangastaðaþróunar. Hér eru einhver merkilegustu undur íslenskrar náttúru eins og Ásbyrgi, Dettifoss, Kópaskersmisgengið eða Rauðinúpur og Hraunhafnartangi, nyrstu punktar meginlandsins. Hver veit, kannski leynast í myrkrinu mikil tækifæri?

Lóðir fyrir fólk og fyrirtæki

Áfram verður unnið að gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Þéttbýlið á Kópaskeri hefur verið deiliskipulagt hvar finna má lóðir til áframhaldandi uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Unnið er að þéttingu byggðar með mjög spennandi byggingarmöguleikum innan þéttbýlisins á Húsavík suður frá Hjarðarholti og í Reitnum. Um leið opnast spennandi tækifæri í miðbæ Húsavíkur að fjölga þar íbúum þar sem skapast líflegra og spennandi mannlíf sem stuðningur við verslun og þjónustu. Þá nýtast innviðir betur og dregur úr bílaumferð sem skapar félagslega samheldni með skilvirkari landnýtingu.

Framsýni og stolt

Fjárfestum áfram í innviðum fyrir fjölskyldur, menningu, íþróttir og tómstundir. Verum stolt af því góða sem gerist og rýnum til gagns. Verum stolt af fyrirtækjunum okkar og þeim auðlindum sem þau nýta. Sækjum fleiri og nýtum auðlindirnar okkar til að fjölga störfum og skapa tekjur til að byggja upp samfélagið okkar.

Framtíðin ræðst ekki af því sem við ætlum að gera, heldur því sem við gerum í dag. Framtíðin bíður ekki – hún mótast af ákvörðunum okkar í dag. Með samstöðu, framsýni, seiglu og kjarki getum við byggt upp öflugt og sjálfbært samfélag þar sem tækifæri blómstra. Hvernig getur þú tekið þátt í að byggja samfélag sem við getum öll verið stolt af?

 Hjálmar Bogi Hafliðason

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings

 

Nýjast