Slæmt ástand og umgengni varað alltof lengi og verður að linna

Umgengni á og við Hamragerði 15 á Akureyri, umgengni við Setberg á Svalbarðsströnd og númerslausir b…
Umgengni á og við Hamragerði 15 á Akureyri, umgengni við Setberg á Svalbarðsströnd og númerslausir bílar innanbæjar á Akureyri og víðar hefur margoft komið til kasta Heilbrigðiseftirlits Norðurlands,

Umgengni á og við Hamragerði 15 á Akureyri, umgengni við Setberg á Svalbarðsströnd og númerslausir bílar innanbæjar á Akureyri og víðar hefur margoft komið til kasta Heilbrigðiseftirlits Norðurlands, en þetta þrennt tengist allt einu og sama fyrirtækinu. Bílar í ýmsu ástandi eru fyrirferðarmiklir á báðum stöðum.

„Ástandið hefur varað í mörg ár og lagast því miður lítið. Þetta hefur í för með sér mikla vinnu með tilheyrandi kostnaði bæði fyrir heilbrigðiseftirlitið, og ekki síður viðkomandi sveitarfélög. Þá eru ótalin öll þau óþægindi og ónæði sem nágrannar og hinn almenni borgari hefur af þessu ástandi sem hefur varað alltof lengi og verður að fara að linna,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands.

Áform um tiltekt stóðst ekki

Í byrjun desember síðastliðinn óskaði lóðarhafi við Hamragerði 15 eftir því að álagðar dagsektir yrðu felldar niður þar sem til stæði að taka til á lóðinni fyrir miðjan mánuðinn. Á fundi Heilbrigðisnefndar þann 5. desember fagnaði nefndin áformum um tiltekt á lóðinni en taldi ekki ástæðu til þess að taka beiðni um niðurfellingu dagseta til umfjöllunar að svo stöddu. Leifur segir að síðar hafi komið í ljós að áformin gengu ekki eftir. Álagning dagsekta heldur því áfram.

Númerslausir bílar dúkka upp

Yfir á Setbergi er ástandið óbreytt og þar hafa dagsektir verið lagðar á síðan í lok október. Forsvarmenn Auto ehf. hafa kynnt áform um upphreinsun á hluta lóðarinnar en þau hafa ekki gengið eftir frekar en í Hamragerði. „Númerslausir bílar á vegum fyrirtækisins dúkka mjög reglulega upp hér og þar, bæði á Akureyri og á Lækjarvöllum í Hörgársveit,“ segir Leifur.

Hann segir markmið dagsekta að þvinga fram úrbætur, í þessum tilfellum bætta umgengni. Álagning dagsekta hefur enn ekki skilað tilætluðum árangri en óinnheimtar dagsektir vegna Hamragerðis og Setbergs nálgast nú 6.000.000 án vaxta, dagsektir eru aðfararhæfar og er hluti upphæðarinnar kominn í lögheimtu.

Nýjast