Píluáhugi Húsavíkinga í miklum vexti
Á síðasta ári var stofnuð píludeild Völsungs á Húsavík, og í nóvember flutti deildin í nýja og glæsilega aðstöðu í kjallara Sundlaugar Húsavíkur. Síðan þá hefur áhugi á píluíþróttinni í bænum vaxið fram úr björtustu vonum, með um það bil 90 manns skráða í félagið nú þegar.
Guðmundur Þráinn Kristjánsson eða Gummi Lilla eins og hann er alltaf kallaður ræddi við blaðamann Vikublaðsins í vikunni. Hann er eins og margir, sýktur af pílubakteríunni og hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf við að koma pílufélagi Völsungs til vegs og virðingar. Hann segir að þessi gríðarlegi vöxtur íþróttarinnar á Húsavík sé merkilegt í ekki stærra bæjarfélagi. Til samanburðar nefnir hann að píludeild Þórs á Akureyri, stærsta pílufélag landsins, hafi um 130 félaga, og Pílufélag Reykjavíkur hafi um 110 félaga.
Mikil ástríða hefur skilað sér
Gummi telur að áhuginn á píluíþróttinni hafi vaknað vegna mikillar vinnu og ástríðu sem lögð hefur verið í að kynna íþróttina. „Frá opnun nýju aðstöðunnar hafa verið haldin tvö alvöru mót og svo fleiri æfingamót innan félagsins,“ segir Gummi og bætir við að vonir standi til þess að Völsungur muni eiga fulltrúa í deildarkeppninni á Íslandi og þá er einnig verið að skoða möguleikann á að stofna einstaklingsdeild innan klúbbsins. „Fyrirkomulagið yrði þá þannig að við skoðum meðalskorið hjá mönnum og svo röðum við þeim í fyrstu, aðra og niður í fjórðu deild ef næg þátttaka fæst. Svo er bara keppt einu sinni í mánuði innbyrgðis í þessum deildum,“ útskýrir Gummi.
Reyna að höfða til kvenna
Þrátt fyrir að Píludeild Völsungs sé nýstofnuð hefur þegar verið haldið sértakt konukvöld þar sem 42 konur mættu og skemmtu sér konunglega. Gummi segir að það séu átta fyrsta flokks brautir í aðstöðunni og að fólk sé að koma bæði til að kasta pílu og horfa á keppnir í sjónvarpi.
Ótrúlegur vöxtur
Gummi er mjög ánægður með fyrsta píluár Völsungs og segir að félagið hafi slegið öll met í pílubransanum á Íslandi. „Já, þetta er búið að ganga framar vonum eins og ég sagði, þrátt fyrir stuttan tíma þá held ég að við höfum slegið öll met sem til eru í þessum pílubransa á Íslandi. Ég hef líka verið að heyra frá þessum köllum sem eru fyrir sunnan í þessu; þeir eru gríðarlega ánægðir með okkur, hvað við höfum náð að trekkja að á stuttum tíma,“ segir Gummi.
Félagið hefur fasta opnun tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, en er að skoða möguleikann á að hafa fasta tíma á miðvikudögum, sérstaklega fyrir konur. „Það var mikið opið hjá okkur í desember utan venjulegs opnunartíma og mætingin var mjög góð."
„Á opnu kvöldunum okkar fyrir jól, þá voru yfirleitt að mæta á bilinu 20 til 25 manns, sem er bara mjög gott og má eiginlega ekki vera mikið meira því þá er bara orðið fullt. Svo þessar auka opnanir þá voru að jafnaði 10 til 15 manns að mæta. Það er alls konar fólk að stunda þetta og sérstaklega gaman að sjá fullorðna kalla koma með syni sína að kasta,“ segir Gummi og bætir við að markmiðið sé að ná að fjölga konum í íþróttinni. „Okkur langar til að ná svona 10-15 konum til að stunda píluna af einhverri virkni." segir hann og vísar til þess að konukvöldið hafi heppnast ákaflega vel.
Kjörið fjölskyldusport
Píluíþróttin hentar öllum aldurshópum og Gummi segir að það sé kjörið fjölskyldusport. Hann nefnir að Skóbúð Húsavíkur hafi selt píluspjöld fyrir jólin og að það hafi verið glymrandi sala. Einnig hafi Pósthúsið fengið talsvert af sendingum með píluvörum.
Gummi segir að það geysi sannkallað píluæði á Húsavík og að félagið stefni að sjálfsögðu á að halda mönnum við efnið. „Svo hef ég líka fengið fyrirspurn frá Miðjunni hæfingu, hvort þau gætu fengið afnot af salnum einhverja morgna og það er bara frábært ef þau geta nýtt þessa aðstöðu,“ segir hann.
Öflugt unglingastarf
Þá ber að nefna að Völsungur býður einnig upp á svo kallað krakkakast einu sinni í viku en það er Gummi sem heldur utan um það. „Við erum með krakkakast á þriðjudögum frá 17 til 19 fyrir unglinga á aldrinum 13-18 ára. Við ætlum að ráðast í smá herferð á nýju ári og skoða hvaða tímasetningar henta best upp á aðra íþróttaiðkun og félagslíf.
Norðurþing styrkti píludeildina um eina milljón króna til uppbyggingar á nýju aðstöðunni og þá hefur félagið notið styrkja frá fyrirtækjum í bænum en það voru félagar deildarinnar sem sjálfir létu hendur standa fram úr ermum í sjálfboðavinnu. Afraksturinn er fullkomin aðstaða fyrir pílukast og algjör sprenging í áhuga á þessari skemmtilegu íþrótt á Húsavík.