Tundurdufl í veiðarfærum
Fiskvinnsluhús Útgerðarfélags Akureyringa var rýmt skömmu eftir hádegi í dag vegna tundurdufls sem kom í veiðarfæri togarans Bjargar EA. Duflið kom í síðasta holi veiðiferðarinnar. Björg kom til Akureyrar í morgun.
Duflið er illa farið og var mat áhafnarinnar að um gamla járntunnu væri að ræða. Við nánari athugun reyndist hluturinn vera tundurdufl.
Haft var samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar og eru þeir væntanlegir norður síðdegis.
Ákveðið var að rýma svæðið í eitt hundruð metra radíus frá bryggju, því var vinnslu hætt í dag til að gæta fyllsta öryggis.
Í viðtali við vef Visis segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar ,, að ákveðið hafi verið að senda séraðgerðasveitina á bíl norður eftir að tilkynning barst frá áhöfn íslensks fiskiskips um að það hefði fengið sprengju í veiðarfærin. Af myndum að dæma telja sérfræðingar Gæslunnar líkur á að hún sé svonefnd djúpsprengja, líklega frá síðari heimsstyrjöldinni.
Vanalega sé farið með slíkar sprengjur aftur út á sjó þar sem þær eru sprengdar á ákveðnu dýpi. Ásgeir segir líklegast að sú verði raunin nú en það sé í höndum séraðgerðasveitarinnar að meta það þegar hún kemur norður" sagði Ásgeir ennfremur í samtali við vef Vísis.
Rétt er að taka fram að ekki er talin hætta utan lokunarsvæðisins eftir því sem fram kemur á Fb síðu lögreglu.