Hafnasamlag Norðurlands Góð staða og spennandi verkefni en hættur geta verið í sjónmáli

Blikur eru á lofti varðandi komur skipanna en nú á fyrstu dögum ársins er ljóst að mun færri skip ko…
Blikur eru á lofti varðandi komur skipanna en nú á fyrstu dögum ársins er ljóst að mun færri skip koma til hafnar í Eyjafirði en á síðastliðnu ári Mynd Fb síða Hafnasamlags Norðurlands

Staða Hafnasamlags Norðurlands er afar góð um þessar mundir og mörg spennandi uppbyggingar verkefni í gangi. Ýmsar hættur eru þó í sjónmáli sem geta breytt stöðunni til hins verra. Þar ber helst að nefna þá ákvörðun stjórnvalda að taka upp innviðagjalds á farþega skemmtiferðaskipa. Þær tóku gildi um nýliðin áramót.

Pétur Ólafsson hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands segir að á liðnum árum hafi komur skemmtiferðaskipa til hafna samlagsins, Akureyrar, Hríseyjar og Grímseyjar skapað traustan grunn í rekstri þess. „Tekjur hafa verið góðar undanfarin ár og þær skapað okkur möguleika á að vaxa og dafna, vinna að endurnýjun og takast á við ný verkefni. Grunnur að þeirri uppbyggingu sem hefur verið síðustu ár, hefur að miklu leyti skapast vegna aukinna tekna af komum skemmtiferðaskipa.

Fækkar um 44 skip

Blikur eru á lofti varðandi komur skipanna en nú á fyrstu dögum ársins er ljóst að mun færri skip koma til hafnar í Eyjafirði en á síðastliðnu ári. Þá voru þær 258 í allt en verða 214 nú í ár, 2025, gangi allt eftir, eða fækkun um 44 skip. „Það gefur auga leið að tekjurnar minnka sem því nemur og hefur áhrif á okkar rekstur,“ segir Pétur. Skipin hafa ýmist hætt við komu til landsins og valið aðrar siglingaleiðir eða afbókað sig og valið aðra áfangastaði. „Mörg skipafélaganna hafa tekið þessar ákvarðanir vegna þeirrar óvissu og óstöðugleika sem uppi hefur verið síðustu mánuði hvað varðar álagningar stjórnvalda og óvænt útgjöld fyrir skipafélög.“

Hann segir sveitarfélög um landið, hafnir, Cruise Iceland og fleiri hagsmunaaðilar hafi sent stjórnvöldum ákall um breytingar og þá sé fyrst og fremst verið að óska eftir lengri aðlögunartíma. „Við höfum bent á að farsælla er að innleiða þetta gjald í nokkrum skrefum á þremur til fjórum árum í stað þess að skella þessu á korteri fyrir kosningar, svo að segja fyrirvaralaust. Það kom okkur á óvart hvernig að þessu var staðið, engin umræða og ekkert samráð. Það hefur komið til tals að taka upp innviðagjald og enginn á móti því í sjálfu sér en framkvæmdin er ámælisverð,“ segir Pétur.

Vegna þess hve skammur fyrirvarinn var gátu skipafélögin ekki innheimt gjaldið hjá sínum farþegum, en yfirleitt hefur bróðurpartur farþega, eða um 90% þeirra bókað sig um ár fram í tímann. „Skipafélögin þurfa því sjálf að greiða innviðagjaldið og eru ósátt við það hvernig staðið var að þessu, það hefði vel mátt útfæra þetta mun betur en gert var,“ segir Pétur.

Nýjast