Ný brú á Skjálfandafljót hjá Fosshóli í burðarliðnum

Framkvæmdir hefjast á árunum 2029 til 2033 þegar öll tilskilin leyfi liggja fyrir. Kostnaður við smí…
Framkvæmdir hefjast á árunum 2029 til 2033 þegar öll tilskilin leyfi liggja fyrir. Kostnaður við smíði brúarinnar nemur um 1.200 milljónir króna

Vegagerðin  hefur kynnt byggingu nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Skjálfandafljót á Hringvegi í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Brúin er hluti af grunnkerfi samgangna en núverandi brú er einbreið og uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar segir í kynningu á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Brúarbyggingin er í grennd við Goðafoss sem er fjölsóttur ferðamannastaður. Brúin verður byggð yfir gljúfur árinnar neðan við núverandi brú og þarf því að ný- og endurbyggja Hringveginn á um 1,5 km löngum kafla. Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur á Hringveginum. Framkvæmdin er í samræmi við markmið samgönguáætlunar um að auka umferðaröryggi og fækka einbreiðum brúm.

Um 20 til 30 manns við brúarsmíðina

Ný brú á Skjálfandafljót verður bogabrú og heildarlengd brúargólfs verður 84 metrar. Hún verður tvíbreið sem fyrr segir og lega hennar hönnuð fyrir 90 km/klst. hámarkshraða en vegkaflinn líklega skiltaður fyrir 70 km/klst. hámarkshraða.

Vegna umfangs verksins má reikna með að nokkur fjöldi starfa skapist á framkvæmdartíma. Reikna má með um 20-30 störfum í um 18-24 mánuði vegna brúar- og vegavinnu.

Samkvæmt drögum að Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 er áætlað að fyrirhuguð framkvæmd verði á árunun 2029-2033 þegar öll tilskilin leyfi liggja fyrir. Stefnt er að því að hægt verði að taka mannvirkið í notkun um tveimur árum eftir að framkvæmdir hefjast. Heildarkostnaður við byggingu brúar á Skjálfandafljót, ásamt vegtengingum, er áætlaður 1.200 milljónir krónur.

Nýjast