Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?
Undanfarið hefur umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið (ESB) vakið athygli og verið áhugavert að lesa hinar ólíku hliðar og sjónarmið í þessari umræðu. Mikilvægt er þó að skýra að slík atkvæðagreiðsla snýst ekki um framhald eldri viðræðna heldur um upphaf nýrra viðræðna – og þar liggur verulegur munur.
Upplýst þjóð er lykilatriði
Til að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé marktæk er lykilatriði að þjóðin fái góðar og greinargóðar upplýsingar um hvað felst í slíkum viðræðum. Hverjir eru kostirnir og gallarnir? Hvað getur Ísland fengið frá ESB sem ekki er þegar til staðar í gegnum EES-samninginn?
Ef þjóðin kysi að hefja viðræður við ESB væri ekki um einfalt framhald eldri viðræðna að ræða. Evrópusambandið hefur breyst umtalsvert á síðustu árum og sá samningagrunnur sem var lagður fram áður er úr sögunni. Nýjar viðræður þýða að við færumst inn í ferli sem getur verið tímafrekt og kostnaðarsamt. Þetta er ekki einungis spurning um viðræður heldur einnig um aðlögun að reglum sambandsins og breytingar á ótal sviðum, auk þess sem viðræðuferlið getur tekið mörg ár. Í því ljósi ætti þjóðin að gera sér grein fyrir því hvað þær viðræður fela í sér. Er það tímans og kostnaðarins virði að hefja aftur viðræður á byrjunarreit þegar grundvallarspurningum, sem sigldu viðræðunum í strand síðast, hefur ekki enn verið svarað með fullnægjandi hætti?
Krónan eða evran
Eflaust trúa því einhverjir að innganga í ESB leysi öll okkar vandamál og er þá litið á evruna sem galdratæki sem bjargað geti öllum vandræðum okkar í eitt skipti fyrir öll. Evrópusambandið er annað, stærra og meira en bara upptaka á evru, auk þess sem innganga í sambandið er ekki lausn undan verðbólgu, sem þó fer hratt lækkandi hér á landi.
En þetta er mikilvægt atriði í umræðunni sem gott er að liggi fyrir. Því til þess að hægt sé að taka upp evru hér á landi þarf Ísland að uppfylla Maastricht-skilyrðin, sem fela í sér meðal annars fjárhagslegan stöðugleika, lágt skuldahlutfall og stöðuga vexti. Vissulega ástand sem er ákjósanlegt en þetta er langt ferli sem myndi krefjast ótal efnahagslegra umbóta og ekki víst að slíkar umbætur náist. En ef þær nást vaknar spurningin hvort þetta er skref sem við þurfum að stíga.
Hagsmunum Íslands betur komið utan ESB
Við í Framsókn erum þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins, en innan EES. Ísland, Noregur og Sviss, sem öll standa utan Evrópusambandsins, eru á meðal þeirra landa sem teljast hafa hvað best lífskjör í veröldinni. EES-samningurinn veitir Íslandi aðgang að einu stærsta viðskiptasvæði heims án þess að þurfa að hlíta ströngum reglum og stefnum ESB.
Við höfum öll tækifæri til þess að ná tökum á ástandinu og eru þegar farin að sjást sterk merki um það núna þegar verðbólga er á hraðri niðurleið. Við í Framsókn höfum trú á Íslandi og tækifærum landsins. Við búum við kröftugan hagvöxt, erum með sterka innviði, lítið atvinnuleysi og útflutningsgreinar sem vegnar vel. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um öll lönd innan ESB. Ísland hefur staðið vel í alþjóðlegum samanburði hvað varðar lífskjör, heilbrigðiskerfið, menntun og þannig mætti áfram telja þótt vissulega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brestur á í kjölfar heimsfaraldurs, sama hvaða gjaldmiðil er um að ræða. Þá skal hafa í huga stærð og sérstöðu lands og þjóðar þegar kemur að samanburði og samkeppnishæfni við önnur stærri og fjölmennari lönd. Myndi innganga í ESB þjóna hagsmunum þjóðarinnar í heild sinni eða aðeins hluta? Það ber að varast að trúa á einhverjar kostnaðarsamar, óljósar og órökstuddar töfralausnir. Það er í mörg horn að líta varðandi viðræður við ESB og því mikilvægt að gleyma sér ekki í að horfa eingöngu á það sem hentar hverju sinni. Auðlindir okkar eru grundvöllur hagvaxtar og eiga ekki að vera notaðar sem skiptimynt í samningaviðræðum við ESB. Við eigum að horfa til lengri tíma með hagsmuni lands og þjóðar í fyrirrúmi og með skýr markmið að leiðarljósi.
Þannig tryggjum við farsæla framtíð íslenskrar þjóðar.