HVAÐ GAMALL NEMUR......

Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Allt frá því ég man fyrst eftir mér hef ég verið brennandi áhugamaður um bíla og farartæki sem gengu fyrir sprengihreyfli. Mér þóttu stærri vélar alltaf eftirsóknarverðari og dreymdi um að eignast amerískan bíl með hestöflum sem telja mætti í hundruðum.

Orkuskiptin mín

Ég held því stundum fram að ég hafi verið fyrsti Akureyringurinn sem notaði rafknúinn einkabíl. Það gerðist snemma á 10. áratug síðustu aldar. Þessi fyrstu orkuskipti mín komu til af því að BMW bíll minn hafði bilað og ég fékk tveggja sæta danskan rafbíl lánaðan. Bíllinn var úr trefjaplasti og búinn venjulegum rafgeymum eins og notuð eru til að ræsa sprengihreyfla í venjulegum bílum. Drægnin var á bilinu 25 til 45 kílómetrar. Réð þar miklu hve mikið þurfti að nota ljós, rúðuþurrkur og miðstöð.  Skemmst er frá því að segja að ég var þeirri stundu fegnastur þegar ég fékk loksins alvöru bíl í hendur.

Um miðjan 2. áratug þessarar aldar fóru bílaframleiðendur að markaðssetja bíla sem voru hefðbundnir að öðru leyti en að þeir höfðu rafmótor. Ég lét mér fátt um finnast og taldi að þetta yrði ekki langlíft. En á dögunum datt mér í hug að reynsluaka rafbíl. Dálæti mitt amerískum bílum réði því hvaða bíll varð fyrir valinu. Um leið og ég settist inn í hann varð mér ljóst að þetta var ekki bíll, heldur snjalltæki sem hægt var að nota til að komast á milli staða. Ekki ósvipað og að símtæki nútímans eru öflugar tölvur sem líka er hægt að hringja úr. Ekki nóg með það, heldur gerði þetta tæki sjálft margt af því sem mér hefur með tímanum farið að þykja vandasamt og minnir mig á margt af því sem ég á það til að gleyma. Og eftir að ég hafði fullvissað mig um að bíllinn hentaði til langferða keypti ég hann.

Eru rafbílar framtíðin?

Margir velta því fyrir sér hvort rafbílar séu hentugir og hvort þeir séu framtíðin. Svörin eru einföld.  Rafbílar eru hentugir fyrir þá sem þeir henta. Hvað framtíðina varðar þá veit ég ekkert um hana og mun aðeins lifa óverulegan hluta hennar.  Ég kaupi mér bíla til að nota núna og rafbílar eru sannarlega nútíðin. Og nú hefur æskudraumurinn orðið að veruleika og ég keyri um bæinn að 535 hestafla amerískum sportbíl. Og þegar ég kem út á morgnana vel ég alltaf Tesluna, sem er hlý og notaleg með fullan tank, frekar en helkaldan Pajero jeppann. Hann bíður rólegur eftir því að fá að draga hjólhýsið í sumar.

 

Nýjast