Ragnheiður Gunnarsdóttir í Kisukoti langþreytt á svarleysi Akureyrarbæjar
„Það hefur ekki einn einasti maður frá Akureyrarbæ haft samband við mig síðan í apríl í fyrra. Ég hef ekki fengið nein viðbrögð við þeim tölvupóstum sem ég hef sent til starfsmanna bæjarins,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekið hefur Kisukot – kattaaðstoð á heimili sínu frá því janúar árið 2012. Bæjarráð samþykkt í nóvember árið 2023 að hefja samningaviðræður við Ragnheiði sem miðuðu að því að koma starfseminni út af heimilinu og í húsnæði sem uppfyllt kröfur fyrir starfsleyfi.
Þrátt fyrir þá samþykkt fer starfsemi Kisukots enn fram á heimili Ragnheiðar. Þar eru nú alls 13 aukakettir sem hún hefur skotið skjólshúsi yfir og eiga það flestir sameiginlegt að vera enn ekki tilbúnir að fara inn á heimili. Umtalsverður kostnaður fylgir starfseminni en Ragnheiður segir hann misjafnan á milli mánaða. Dýralæknakostnaður vegur þyngst og er að jafnaði á bilinu 100 til 150 þúsund krónur á mánuði. Þá eru talsverð útgjöld við kaup á mat og kattasandi en hún segir að af og til fái nú gefins mat sem komi sér einkar vel.
Mörg hundruð kisum verið bjargað
Ragnheiður vekur athygli á stöðunni í facebook færslu fyrr í vikunni og segir að hún hafi um langa hríð reynt að fá Akureyrarbæ til að aðstoða sig við starfsemina. Send var áskorun til bæjarins í apríl árið 2023 frá Samtökum um dýravelferð á Íslandi sem skoruðu á bæinni að styðja það mikilvæga starfs sem unnið væri í Kisukoti. „Mörghundruð kisum hefur verið bjargað, það hefur kostað vinnu, tíma og fjármagn. Áframhaldandi starfsemi er tvímælalaust Akureyrarbæ í hag. Sveitafélög hafa aðstoðað samsvarandi starfsemi, má þar nefna Akranes sem útvegaði félaginu Villiköttum húsnæði. Mikilvægt er að sveitafélög láti til sín taka í málum sem varða velferð dýra,“ segir í áskorun Samtaka um dýravelferð.
Ragnheiður segir að undanfarna mánuði hafi hún ítrekað sent tölvupósta til þeirra sem hafa með málið að gera hjá Akureyrarbæ en síðasta svar hafi borist 30. apríl 2024. „Síðan þá hef ég ekki fengið nein svör frá bænum þrátt fyrir að ég hafi ítrekað sent póst með fyrirspurn um stöðu mála. Ég verð að segja að mér þykja þetta arfaslök vinnubrögð hjá starfsfólki Akureyrarbæjar að hætta að svara skilaboðum. Akureyrarbær virðist engan áhuga hafa á dýravernd og það er sannarlega miður í 20 þúsund manna bæjarfélagi,“ segir hún.
Nokkur sveitarfélög styðja svipaða starfsemi
Nokkur sveitarfélög í landinu styðja við svipaða starfsemi og Ragnheiður er með, m.a. með því að útvega húsnæði, greiða hita og rafmagn og fleira sem til þarf við rekstur af þessu tagi. Fram kemur í minnisblaði um málið frá því haustið 2023 að gera mætti ráð fyrir að kostnaður við að rekstur 50 fermetra húsnæðis gæti numið um 150 þúsund krónum á mánuði.