Þrjár fastráðningar sérfræðinga í heimilislækningum hjá HSN
„Við höfum verið að styrkja okkar mönnun og erum afskaplega glöð með að fá þessa lækna til liðs við okkur,“ segir Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,HSN.
Gengið hefur verið frá fastráðningu þriggja sérfræðinga í heimilislækningum hjá HSN, en það eru Valur Helgi Kristinsson sérfræðingur í heimilislækningum, Hrafnhildur Gréta Björnsdóttir og Ádám Ferenc Gulyás. Hrafnhildur og Ádám luku sérnámi í heimilislækningum fyrr í haust. Valur og Hrafnhildur starfa á heilsugæslunni á Akureyri og Ádám á heilsugæslunni á Húsavík.
Nám í heimabyggð skilar árangri
Jón Helgi segir að mikill fengur sé að nýjum sérfræðingum í heimilislækningum og þau styrki stöðu HSN. „Það skiptir máli að við höfum boðið fólki upp á að mennta sig í heimabyggð, það er að skila góðum árangri, við fáum fleiri lækna til liðs við okkur og erum að uppskera vel með þeirri stefnu,“ segir hann. Enn eru ekki allar stöður lækna hjá HSN fullmannaðar, „en við erum í sterkari stöðu en oft áður og vinnu markvisst að því að ná því takmarki að ná fullri mönnun,“ bætir hann við.
Ný heilsugæslustöð hefur sannað gildi sitt
Ný heilsugæslustöð var tekin í notkun í Sunnuhlíð í mars á liðnu ári og hefur reynst mjög vel. „Ný og betri aðstaða hefur sitt að segja við að laða fólk til starfa,“ segir Jón Helgi, en náið samstarf við starfsfólk við það hvernig stöðin var byggð upp og hefur það skilað sér í mikill ánægju starfsmanna. „Þessi stöð hefur svo sannarlega sannað gildi sitt og reynslan af fyrstu 10 mánuðum er góð.“
Jón Helgi væntir þess að á nýju ári verði tekin ákvörðun um aðra heilsugæslustöð á Akureyri, þá sem á að þjóna íbúum í suðurhluta bæjarins. Endanleg staðsetning hennar hefur ekki verið tekin en að sögn verður henni tæplega valin staður á svonefndum tjaldstæðisreit eins og áform voru uppi um á tímabili.