Fréttir

Húðvaktin er ný fjarlækningaþjónusta í húðlækningum

Húðvaktin er fjarlækningaþjónusta sem opnaði þann 3. janúar síðastliðinn og er fyrsta þjónusta sinnar tegundar á Íslandi. Húðvaktin býður fólki sem þarf á aðstoð sérfræðings í húðlækningum að halda að fara inn á hudvaktin.is og skrá þar beiðni til læknis. Fyrir beiðnina þarf tvær myndir og lýsingu á þeim húðeinkennum sem eru til staðar, en því næst er beiðnin send til afgreiðslu hjá sérfræðingi í húðlækningum. Innan 48 klukkustunda svarar húðlæknir og setur upp meðferðarplan sem eftir atvikum getur m.a. falið í sér lyfjameðferð, frekari rannsóknir á stofu eða tíma á skurðstofu.

Lesa meira

Hafdís Íslandsmeistari í Rafhjólreiðum 2024

Um helgina fór fram fyrsta Íslandsmótið í Rafhjólreiðum þar sem keppendur hjóluðu á  ,,trainerum” sem eru þannig búnir að þeir lesa hversu mörg vött hjólreiðamaðurinn framkallar með því að snúa sveifunum á hjólum sínum og skila því svo yfir í tölvuleikinn zwift sem notar það svo ásamt skráðri þyngd til að ákvarða hraðann sem keppandinn er á í leiknum.

Margir af bestu hjólurum landsins voru því sestir á keppnishjólin sín fyrir framan tölvuskjái á laugardagsmorguninn til að taka vel á því.

Lesa meira

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Optimar

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu Optimar International AS (Optimar) af þýska eignarhaldsfélaginu Franz Haniel & Cie. GmbH (Haniel). Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi.

Lesa meira

Lokaorðið - Fyrr en misst hefur.

Stundum þegar ég stend undir heitri sturtu eða hækka í ofnunum hugsa ég um hvað myndi gerast ef heita vatnið sem kemur úr iðrum jarðar gengur til þurrðar. „Láttu ekki ljósin loga né vatnið renna að óþörfu. Notaðu ekki meira en þú þarft.“ Þetta lífsstef foreldra minna hefur oft komið upp í hugann undanfarið. Þau lifðu byltinguna úr myrkri og kulda torfkofanna yfir í ljós og hita nútímans.

Á heimili mínu er til húsgang sem var smíðað árið 1917 og heitir servantur. Servantur er lítill skápur sem hafði að geyma vaskafat, tveggja lítra könnu fyrir vatn, sápustykki, lítið handklæði og þvottapoka. Servantur var inni í köldum herbergjum fólks og var bað- og snyrtiaðstaða þess tíma og langt fram á síðustu öld. Í dag er sjálfsagt að hafa tvö baðherbergi í húsum auk heitra potta í húsagörðum, upphituð bílastæði og raflýsingar allt um kring. En lífið er ekki sjálfsagt og lífsgæðin ekki heldur. Allt er í heiminum hverfult og getur snúist án fyrirvara. Það höfum við séð gerast á Suðurnesjum síðustu mánuði.

Við erum vanmáttug því náttúran er að hefja nýtt skeið sem við gleymdum að reikna með og enginn veit hvað framtíðin mun færa. En þó vanmáttug séum getum við þó gert eitt, sama hvar á landinu við búum. Við getum ígrundað hvernig við notum orkugjafana okkar því þeir eru hvorki sjálfgefnir né óþrjótandi. Við getum gengið betur um orku náttúrunnar, því enginn veit hvað átt hefur - fyrr en misst hefur.

Lesa meira

89 brautskráðust frá Háskólnum á Akureyri

Vetrarbrautskráningarathöfn fór fram í Háskólanum á Akureyri í annað sinn nú um liðna helgi. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarskírteini sín í október 2023 og þeim sem brautskráðust 17. febrúar síðastliðinn. Alls brautskráðust 89 kandídatar af tveimur fræðasviðum í október og febrúar. Af þeim brautskráðust 19 kandídatar frá Háskólasetri Vestfjarða og er þeim boðið á hátíðlega athöfn á Hrafnseyri þann 17. júní 2024.

Í ræðu sinni fjallaði Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri, meðal annars um eflingu og vöxt háskólans. „Til gamans má geta að stúdentum HA hefur fjölgað um rúm 60% á undanförnum áratug. Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að hér ríki persónulegt og sterkt námssamfélag. Ég vona að það sé einmitt ykkar upplifun af háskólagöngu ykkar hér. Samfélagið og sú umgjörð sem það skapar breytist hratt og í dag er staðreyndin sú að stúdentar halda ansi mörgum boltum á lofti, með fjölbreyttar áskoranir og áreiti úr öllum áttum.“

Lesa meira

Allskonar fólk, jafnrétti og vöfflur með rjóma

„Það sem stóð upp úr varðandi Jafnréttisdaga í ár var hve einstaklega fræðandi þeir voru. Það var mikilvægt að beina kastljósinu að málefnum fólks af erlendum uppruna og naut ég þess mjög að heyra bæði sjónarhorn stjórnmálafólks af erlendum uppruna á rafræna opnunarviðburðinum og sjónarhorn kvenna af erlendum uppruna á málþingi um jaðarsetningu í HA. Kynning Kristínar Hebu á stöðu fatlaðra var sláandi og vona ég að unnið verði með niðurstöður skýrslu hennar til að bæta stöðu þeirra. Ég held að við höfum öll lært eitthvað nýtt á Jafnréttisdögum sem við getum tekið með okkur inn í árið.“ segir Sæunn Gísladóttir, fulltrúi HA í stýrihóp Jafnréttisdaga, um hvað henni fannst standa upp úr núna í ár.

Árlega standa allir háskólar landsins fyrir Jafnréttisdögum og hafa þeir verið haldnir frá árinu 2009. Þema ársins 2024 var inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum. Í HA voru haldnir fjórir viðburðir í tengslum við dagana sem voru bæði vel sóttir og mörg sem nýttu sér að horfa á þá í streymi. Efni fyrirlestra var jaðarsetning fólks af erlendum uppruna, ADHD í námi og daglegu lífi og staða fólks með örorkumat, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk. Hægt er að finna upptökur á Facebooksíðu Jafnréttisdaga og frekari upplýsingar um Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild og formaður jafnréttisráðs HA, segir að í allri baráttu fyrir jafnrétti sé mikilvægt að búa til vettvang fyrir fólk sem upplifir mismunun og jaðarsetningu í samfélaginu til að segja frá þeirra reynslu. „Á Jafnréttisdögum er lagt upp úr því að hafa fjölbreytta viðburði þar sem vakin er athygli á málefnum ólíkra hópa, bæði út frá niðurstöðum rannsókna frá sérfræðingum á sviðinu en einnig út frá sjónarhorni einstaklinganna sjálfra. Mér finnst þetta hafa tekist nokkuð vel í ár þökk sé öllu fólkinu sem gaf tíma sinn til þess að taka þátt í þessu með okkur,“ bætir hún við.

Skipulagning og framkvæmd daganna gekk vel samkvæmt Sæunni en ásamt henni í stýrihóp eru tveir jafnréttisfulltrúar frá Háskóla Íslands og verkefnisstjóri Jafnréttisdaga. „Við skipulögðum heildarumgjörðina og sameiginlegu viðburði háskóla landsins, svo sem rafrænu opnunina og viðburðinn Orð og ímyndir stríðs. Við verkefnalistann í ár bættist ný vefsíða Jafnréttisdaga sem við hlutum styrk fyrir í samstarfssjóði háskólanna á vegum háskólaráðuneytisins. Það var mjög gleðilegt að fá í fyrsta sinn vefsíðu undir dagana og geta miðlað betur upplýsingum um þá þar. Það var sérstaklega ánægjulegt hve góðir og fjölbreyttir viðburðirnir voru í HA og ég er afar þakklát þátttakendum sem komu og gáfu tímann sinn, meðlimum Jafnréttisráðs sem stóðu fyrir vöfflukaffi fyrir tæplega 80 manns, nemendum og starfsfólki, sem sóttu viðburðina af miklum áhuga á Akureyri,“ segir Sæunn að lokum.

Við óskum öllum til lukku með vel heppnaða Jafnréttisdaga og hvetjum öll til að fylgjast með áframhaldandi vinnu á nýju vefsvæði Jafnréttisdaga.

Lesa meira

Settu upp tölvustofu í ABC skóla í Burkina Faso

„Ferðin gekk vel í alla staði, markmiðið var vel skilgreint og við náðum að gera það sem við ætluðum okkur,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson sem kom i byrjun vikunnar heim eftir ferð til Afríkuríkisins Burkina Faso.

Þar setti hann ásamt ferðafélögum upp tölvustofu í Ecole ABC de Bobo sem er ABC skóli rekin í næst stærstu borg landsins, Bobo Dioulasso. Tölvunum hafði Adam safnað á Íslandi á liðnu ári, um 100 borðtölvum sem skipt var út í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir fartölvur og þá fékk hann einnig tölvur, skjávarpa og fleira frá Sýn, Vodafone, Menntaskólanum í Tröllaskaga , Origo Lausnum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Gaflara og Tengi.

Lesa meira

Mikil umferð um Akureyrarflugvöll í morgun

Í morgun komu fyrstu farþegarnir í gegnum nýju viðbygginguna þegar Transavia og easyJet lentu á Akureyrarflugvelli. Samtals voru komufarþegarnir 311 manns og brottfararfarþegarnir 340 manns.

Icelandair var einnig með sína áætlun á sama tíma og því fóru 767 farþegar um flugstöðina í morgun og gekk allt eins og í sögu.

Lesa meira

Stór stund á Akureyrarflugvelli á morgun

Frá því er sagt á Facebooksíðu Akureyrarflugvallar  í kvöld að í fyrramálið verði í fysta sinn notuð nýja viðbyggingin við flugstöðina  þegar farþegar Transavia og easyJet muni víga hluta af þeirri glæsilegu aðstöðu sem verið sé að klára. 

Mikið hefur gengið á í þessari viku og margir lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að þetta verði gerlegt, en segja má að  með þessu sé fyrsta áfanga verksins  lokið.

,,Í júlí lýkur áfanga tvö í stækkun flugstöðvarinnar þegar nýr innritunarsalur verður tekinn í notkun en þá mun allt millilandaflug fara í gegnum viðbygginguna" segir orðrétt í frétt á áður nefndri Facebooksíðu.

Því má bæta við að í desember n.k verða 70 ár liðin frá þvi að Akureyrarflugvöllur var tekinn í notkun og því vel við hæfi að hressa uppá þennan farsæla flugvöll.

Lesa meira

Dagsektir vegna umgengni við Hamragerði teknar upp í næstu viku

„Þrátt fyrir að um augljósa innsláttarvillu væri að ræða ákvað heilbrigðisnefnd, í samráði við lögfræðinga Akureyrarbæjar að taka málið upp aftur. Ekki síst í ljósi þess að álagning og innheimta dagsekta er verulega íþyngjandi aðgerð og því afar mikilvægt að rétt að henni staðið af hálfu stjórnsýslunnar,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands.

Lesa meira