Aðalskipulagi breytt á svæði í Holtahverfi

Svæðið í Holtahverfi þar sem til stendur að reisa lífsgæðakjarna er merkt ÍB18 á kortinu.
Svæðið í Holtahverfi þar sem til stendur að reisa lífsgæðakjarna er merkt ÍB18 á kortinu.

Skipulagsráð Akureyrar hefur samþykkt tillögu að breytingu á aðalskipulagi á svæði í Holtahverfi norðaustan við Krossanesbraut. Þar var gert ráð fyrir íbúðabyggð en breytingin sem skipulagsfulltrúa hefur verið falið að kynna gerir ráð fyrir að heimilt verði að byggja lífsgæðakjarna á reitnum.

Reiturinn er tvískiptur og breytingin nær til vestari reitsins á móts við Hlíðarbraut. Samkvæmt ákvæðum gildandi aðalskipulags er gert ráð fyrir þéttingu byggðar með 200-400 íbúðum í blandaðri byggð á íbúðarreitum sem kallast ÍB18. Uppbygging á svæðinu er þegar hafin og fyrstu þrjú húsin risin. 

Eftir breytingu verður nú heimilt að byggja hjúkrunarheimili auk þjónustu fyrir eldri borgara á þessum reit og verður uppbyggingin í samræmi við hugmyndafræði um lífsgæðakjarna, sem einkum er hugsaðir fyrir eldra fólk og áhersla lögð á fjölbreytt búsetuform, m.a. hjúkrunarheimili.

Áhugavert og aðlaðandi umhverfi

Áhersla er lögð á fjölbreytta þjónustu í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir.

Áhrif þess að breyta skilmálum íbúðarsvæðis þannig að heimilt er að byggja lífsgæðakjarna á reitnum eru talin vera jákvæð fyrir samfélagið. Verið er að koma á móts við þarfir íbúa á mismunandi aldri með fjölbreyttri þjónustu auk þess sem verið er að skapa áhugavert og aðlaðandi umhverfi fyrir eldri borgara.

 


Athugasemdir

Nýjast