Aurskriða féll á hús við Skálabrekku á Húsavík

Eins og sjá má rann drulla lang niður með götum í Skálabrekku. Mynd/epe
Eins og sjá má rann drulla lang niður með götum í Skálabrekku. Mynd/epe

Íbúar í þremur húsum við Skálabrekku á Húsavík yfirgáfu heimili sín í nótt vegna aurskriðu sem féll á eitt þeirra. Mbl.is greindi fyrst frá.

Viðbragðsaðilum barst tilkynning um miðnættið í gærkvöldi en mikið rigningarveður hefur verið á Húsavík undan farna daga.

Kristján Ingi Jóns­son, varðstjóri hjá slökkviliðinu á Húsa­vík segir í samtali við Vikublaðið að það hafi farið bæði vatn og aur inn í húsið sem varð mest fyrri barðinu á skriðunni.

„Það fór aðeins inn í húsið en við náðum nú að hreinsa það mesta upp, en leiðinlegast var að það var svolítið af aur sem barst með inn í húsið. En þegar drullan var farin þéttast upp að húsinu, þá virtist það halda að einhverju leiti á móti vatninu. Síðan komum við með gröfur og grófum rásir bæði ofan við og sitthvoru megin niður með því. Það létti álaginu á húsinu,“ segir hann.

Íbúar komnir heim

Hreiðar Hreiðarsson varðstjóri hjá lögreglunni á Húsavík segir að íbúar séu komnir heim til sín aftur en íbúar þriggja húsa hafi í samráði við viðbragðsaðila flutt sig annað í nótt. ,,Raunverulega var rýmingin innan gæsalappa, við mæltumst þó til þess og það var sameiginleg ákvörðun okkar og íbúa í þremur húsum að af því þetta var gangi þarna í nótt og svarta myrkur og erfitt að átta sig á hvaðan þetta væri ættað. Þá voru íbúar í þremur húsum tilbúnir til að færa sig um set í nótt. Þeir eru svo allir komnir heim til sín núna,“ útskýrir Hreiðar og bætir við að ástandið hafi verið orðið stöðugt um fjögur í nótt og nú sé komin skýring á hvað olli skriðunni.

Óttuðust að brekkan færi öll af stað

„Við vorum mest uggandi yfir því að brekkan væri hreinlega orðinn eins og svampur og væri áleiðinni niður en þetta var bara svo staðbundið í einum vatnsskurði niður að einum húsanna. Síðan var bara grafin rás fram hjá því og vatnið fór bara sína leið,“ segir hann en svæðið var myndað með drónum í morgun og þá hafi skýringin komið í ljós.

Göngustígur rofnaði

„Síðan kemur í ljós í morgun þegar svæðið var drónamyndað að göngustígurinn þvert í gegn um skóginn þarna ofan við að það er búið að rigna svo mikið undan farið að stígurinn virkar bara eins og stíflugarður. Vatnið ofan af melnum það safnast ofan við stíginn í stóran drullupoll, síðan þegar rennur yfir stíginn þá grefst hann í sundur og tæmir alveg beint þarna ofan í Þórðarstaði. Þannig að þetta er alveg staðbundinn atburður,“ segir Hreiðar og bætir við að þetta sé bara afleiðing af rigningu síðustu daga sem hefur náð að safnast þarna fyrir ofan við göngustíginn.

Skriða

Skriða á húsavík

.


Athugasemdir

Nýjast