Hermannsbúð tekin í notkun við Útgerðarminjasafnið á Grenivík
Hermannsbúð var tekin í notkun við Útgerðarminjasafnið á Grenivík í tengslum við Grenivíkurgleði fyrir skemmstu. Þar með er Hermann TH 34, hundrað ára súðbyrðingur á heimsminjaskrá kominn í eigið húsnæði.
Útgerðarminjasafnið á Grenivík, sjálfseignarfélag, var opnað 16. júlí árið 2009. Það er í beitingaskúr sem heitir Hlíðarendi og var byggður 1920 fyrir Stefán Stefánsson á Miðgörðum. Safnið hefur að geyma áhöld og muni sem tilheyrðu línuútgerð eins og hún var á fyrri hluta síðustu aldar. „Verkmenningu sem nú er horfin,“ segir Björn Ingólfsson sem sæti í stjórn safnsins.
Metaðsókn í júlí
Safnið er opið yfir sumarmánuðina þrjá, júní, júlí og ágúst frá 13 til 17 og segir Björn aðsókn fara eftir veðri. Sumarið 2022 sóttu um 1.200 manns safnið en gestir voru aðeins færri í fyrrasumar. Nú í júlí síðastliðnum komu 693 gestir á Útgerðarminjasafnið og er það met.
„Gestum sem muna ekki þessa tíma og þekkja ekki störfin finnst þetta áhugavert safn. En ekki síður þeim sem sjá þarna gamla kunningja eins og línubala og stokktré, gogg og skelplóg, sjóhatt og sjóstakk. Það sem mest er myndað er þó fiskurinn sem hangir til þurrkunar á vesturgaflinum. Útlendum ferðamönnum finnst það afar merkilegt,“ segir Björn.
Ekki um annað að ræða en byggja yfir bátinn
Einn af þeim safngripum sem merkastir eru í safninu er sexæringurinn Hermann TH 34 sem Sigfús Þorsteinsson í Kálfsskinni byggði inni í Hlíðarenda 1921. Hann hafði staðið úti nær þrjá áratugi og var farinn að fúna og láta mjög á sjá. Kristján Ben Eggertsson á Húsavík tók hann undir sinn verndarvæng og gerði eins og nýjan að sjá.
Um það leyti voru norrænir súðbyrðingar teknir á heimsminjaskrá og þarna var einn úr þeirra hópi, hundrað ára gamall. Björn segir hvergi hafa verið pláss fyrir bátinn inni þannig að ekki hafi verið um annað að ræða en byggja yfir hann. „Það var tekin ákvörðun um að byggja Hermannsbúð í maí árið 2021 þó kassi safnsins væri tómur,“ segir Björn, en þremur árum síðar var húsið tilbúið og Hermann komin inn. Það segir hann fyrst og fremst megi þakka gjafmildum styrkendum verksins.
Sýningin á Hermanni var formlega opnuð á Grenivíkurgleði 9. ágúst. Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnar Útgerðarminjasafnsins flutti stutta tölu, það gerði líka séra Pálmi Matthíasson standandi um borð í þessum bát langafa síns sem hann hafði sjálfur róið á um tíma. Gestum, sem voru kringum sjötíu, var boðið upp á harðfisk með smjöri og drykki til að renna honum niður.
Fanney Hauksdóttir arkitekt teiknaði húsið, Trégrip ehf byggði, Jóhann Einarsson sá um raflagnir.