Fréttir

Frábær árangur DSA - Listdansskóla Akureyrar í undankeppni Dance World Cup

Þær gerðu það sannarlega gott stelpurnar  frá  DSA - Listdansskóla Akureyrar  sem tóku þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins Dance World Cup sem fram fór í Borgarleikhúsinu s.l.  mánudag.  

Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu með glæsibrag í flokknum söngur og dans með 85 stigum! Þar að auki komu þær heim með fjögur silfur og eitt brons. Yngsti keppandinn var aðeins 6 ára og fór heim með hvorki meira né minna en þrjú verðlaun. 

 Heimsmeistaramótið verður haldið í Prag í sumar, og hafa öll atriði DSA unnið sér inn keppnisrétt. Þetta er í fimmta sinn sem DSA - Listdansskóli Akureyrar tekur þátt í Dance World Cup en þar koma saman rúmlega 100.000 börn frá 50 löndum. 

 

Lesa meira

Græn skref á Amtbókasafninu

Grænum skrefum SSNE er sífellt að fjölga og Amtsbókasafnið á Akureyri tók við viðurkenningu fyrir að hafa stigið sitt fyrsta græna skref af fimm í síðustu viku.

Starfsfólk Amtsbókasafnsins hefur verið einstaklega framtakssamt í þessari vinnu og hefur meðal annars ákveðið verklag til að draga úr orkunotkun innan vinnustaðarins og tryggt skýra flokkun úrgangs á bókasafninu. Þau halda einnig úti frískáp þar sem hver sem er má skilja eftir matvæli og taka matvæli. Mikið magn af mat hefur farið í gegnum frískápinn í hverri viku og hann hefur lagt sitt af mörkum til að draga úr umhverfisáhrifum matarsóunar.

Amtsbókasafnið hefur verið öflugur bakhjarl hringrásarhagkerfisins á fleiri sviðum, meðal annars með fjölbreyttum skiptimörkuðum fyrir allt frá íþróttafatnaði til borðspila.

Lesa meira

Húsavík - Kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda strax – flugsamgöngur í verulegri hættu

Komi ekki til kraftaverk verður áætlunarflugi til Húsavíkur hætt um næstu mánaðamót á vegum Flugfélagsins Ernis. Það sem af er vetri hefur flugfélagið fengið tímabundinn ríkisstyrk með fluginu til Húsavíkur sem klárast um næstu mánaðamót. Full ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni. Forsvarsmenn Framsýnar hafa verið í sambandi við stjórnendur flugfélagsins, sveitastjórnarmenn stjórnvöld og þingmenn Norðausturkjördæmis með það að markmiði að mynda breiðfylkingu um áframhaldandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ekki þarf að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess fyrir Þingeyinga og alla þá sem treysta þurfa á öruggar flugsamgöngur milli landshluta að fluginu verði viðhaldið.

Framsýn hefur þegar komið áhyggjum sínum á framfæri við þingmenn kjördæmisins og forsvarsmenn ríkistjórnarinnar með meðfylgjandi bréfi:  

Ágætu þingmenn

Flugfélagið Ernir hóf að fljúga til Húsavíkur í apríl 2012. Þá höfðu flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur legið niðri í tæp 12 ár. Frá þeim tíma hafa forsvarsmenn flugfélagsins átt mjög gott samstarf við heimamenn um flugið enda mikilvæg samgönguæð milli landshluta.

Forsvarsmenn fyrirtækja, sveitarfélaga, stéttarfélaga, ríkisstofnana, sem og íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið.

Hvað ákall heimamanna varðar um viðunandi samgöngur, hefur Framsýn stéttarfélag nánast frá upphafi komið að því að styrkja flugleiðina Reykjavík-Húsavík með magnkaupum á flugmiðum fyrir sína félagsmenn, sem eru rúmlega þrjú þúsund, auk þess sem félagið hefur komið að markaðssetningu flugfélagsins hvað varðar áætlunarflug til Húsavíkur.

Markmið Framsýnar hefur verið að tryggja flugsamgöngur inn á svæðið og tryggja um leið flugfargjöld á viðráðanlegu verði fyrir félagsmenn, sem margir hverjir hafa lítið á milli handanna. Almennt má segja að mikil ánægja hafi verið meðal félagsmanna Framsýnar og íbúa í Þingeyjarsýslum með frumkvæði félagsins að stuðla að því að tryggja flugsamgöngur í góðu samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Vissulega hefur gefið á móti, en fram að þessu hafa menn komist klakklaust í gegnum brimskaflana hvað áætlunarflugið varðar.

Eins og þingmönnum er vel kunnugt um hefur rekstrargrundvöllur fyrir innanlandsflugi ekki verið upp á marga fiska og því hefur ríkið þurft að koma að því að ríkisstyrkja nokkrar flugleiðir með útboðum eða með sértækum aðgerðum, s.s. til Vestmannaeyja og Húsavíkur. Styrkurinn til Húsavíkur kom til á síðasta ári þegar núverandi eigendur Flugfélagsins Ernis gáfu út að þeir væru að gefast upp á flugi til Húsavíkur nema til kæmi ríkisstuðningur á flugleiðinni, líkt og væri með annað áætlunarflug til smærri staða á Íslandi. Í kjölfarið kom Vegagerðin að því tímabundið að styrkja flugleiðina.

Nú er svo komið að áætlunarflugi til Húsavíkur verður hætt um næstu mánaðamót fáist ekki frekari stuðningur frá ríkinu. Undirritaður fh. Framsýnar hefur fundað með forsvarsmönnum flugfélagsins síðustu daga, þar sem þetta hefur verið staðfest. Fari svo að fluginu verði hætt, sem flest virðist því miður benda til, er um að ræða gríðarlegt reiðarslag fyrir Þingeyinga og alla þá aðra sem eiga erindi inn á svæðið.

Höfum í huga að fjölmargir þurfa að reiða sig á flugið fyrir utan svokallaða hagsmunaaðila sem nefndir eru hér að ofan, það er allur sá fjöldi sem þarf af heilsufarsástæðum að leita lækninga og sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treystir á öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um útgjöldin sem munu stóraukast, ekki síst hjá efnalitlu fólki, hætti áætlunarflugið um mánaðamótin.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar fimmtudaginn 15. febrúar var formanni félagsins falið að skrifa þingmönnum kjördæmisins bréf þar sem kallað verði eftir stuðningi þeirra við að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Þess er vænst að þingmenn svari ákalli Þingeyinga og gangi til liðs við heimamenn í þessu mikilvæga í atvinnu- og  byggðamáli.

Fulltrúar Framsýnar eru reiðubúnir að funda með þingmönnum og/eða veita þeim frekari upplýsingar verði eftir því leitað enda mikilvægt að þingmenn séu vel upplýstir um málið.

Húsavík 16. febrúar 2024

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður

Lesa meira

Formaður Félags eldri borgara - Vonbrigði en við skoðum aðra möguleika

„Það eru vissulega mikil vonbrigði að Búfesti hafi neyðst til að skila lóðunum við Þursaholt. Við erum að fara yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru eftir að ljóst er að þetta verkefni dettur upp fyrir,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri.

Búfesti hefur skilað inn lóðum við Þursaholt 2 til 4 í nýju Holtahverfi norður, m.a. vegna nýrra lánaskilmála sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafði sett og voru þess eðlis að bróðurpartur félagsmanna féll ekki undir þau tekju- og eignamörk sem sett voru. Á lóðunum átti að reisa nokkur fjölbýli og voru tvö þeirra eyrnamerkt fólki eldra en 60 ára.

Karl segir að mikil þörf sé fyrir húsnæði fyrir þennan aldurshóp og fari síst minnkandi. „Það vantar sárlega góðar íbúðir sem henta þessum aldurshóp, við finnum vel fyrir því að eftirspurn þessa hóps eftir íbúðum er talsverður,“ segir hann.

Gera húsnæðiskönnun í næsta mánuði

Nú í marsmánuði verður gerð húsnæðikönnun meðal félagsmanna og þeir inntir eftir því hvers konar húsnæði henti þeim best þegar efri árin færist yfir. Segir Karl það mismunandi hvað henti hverjum og einum, sumir vilji kaupa, aðrir kaupa búseturétt eða leiga íbúð. Síðasti kosturinn segir hann að mörgum hugnist vel og nefnir að til sé Leigufélag aldraðra í Reykjavík þar sem fólki gefst kostur á að leiga íbúðir en búa jafnframt við öryggi sem ekki er til staðar á almennum leigumarkaði.

„Við leggjum þessa könnun fyrir okkar félagsmenn og þá sjáum við hvar skóinn kreppir, hvað þeir vilja og hvar þörfin er mest,“ segir Karl.

Lesa meira

Reynir B. Eiríksson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Vélfags

Bjarmi A. Sigurgarðarsson, annar af stofnendum og einn af eigendum Vélfags, tekur við stöðunni þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn

Lesa meira

Skynsamleg ráðstöfun á skattfé á nýjum eða sama stað?

Skynsamleg ráðstöfun á skattfé á nýjum eða sama stað?

Það getur komið að þeim tímapunkti í lífi fólks að það þurfi meiri aðstoð en hægt er að veita í heimahúsi. Áður en óskað er eftir dvöl á hjúkrunarheimili þurfa öll önnur úrræði að vera fullreynd. Til þess að eiga kost á dvöl á hjúkrunarheimili þarf að sækja um færni- og heilsumat. Dvalarheimili aldraðra sf í Þingeyjarsýslum var formlega stofnað á Húsavík 8. janúar 1976. Stofnendur voru Húsavíkurbær ásamt 12 sveitarfélögum frá Ljósavatnshreppi að vestan til Raufarhafnarhrepps að austan. Fyrsta verkefni félagsins var bygging dvalarheimilis á Húsavík og var hafist handa 20. ágúst 1976. Fyrstu íbúar fluttu svo í Hvamm 2. maí 1981.

Dvalarrými verða hjúkrunarrými

Hvammur á Húsavík hefur í tímans rás breyst í hjúkrunarheimili og sveitarfélögin greitt umtalsverða fjármuni til að halda úti þeirri þjónustu í Þingeyjarsýslu. Hjúkrunarrými eru tvenns konar. Annars vegar eru rými sem ætluð eru einstaklingum sem þurfa að flytjast á hjúkrunarheimili til langframa. Þeim er tryggð búseta þar til æviloka nema heilsufarslegar eða persónulegar aðstæður breytist og bjóði annað. Hins vegar eru rými til tímabundinnar dvalar sem ætluð eru einstaklingum sem þurfa hvíldarinnlögn eða endurhæfingu með það að markmiði að geta flutt heim aftur. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er skýrt kveðið á um ábyrgð ríkisvaldsins á rekstri hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma.

Ágreiningur um rekstur hjúkrunarþjónustu

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekur hjúkrunarþjónustu í Hvammi, húsnæði í eigu Norðurþings, Tjörneshrepps og Þingeyjarsveitar. Þörfin fyrir hjúkrunarrými ætti að vera öllum ljós. Í meira en áratug hefur umræða verið um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Þingeyjarsýslum, á Húsavík til að mæta þeim þörfum sem hjúkrunarþjónusta útheimtir enda húsnæðið Hvamms hannað og byggt til annars en það gerir í dag. Á undanförnum árum hefur verið uppi ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun og rekstur hjúkrunarheimila. Nokkur sveitarfélög hafa skilað rekstrinum til ríksins. Hér í Þingeyjarsýslum rekur Heilbrigðisstofnun Norðurlands hjúkrunarheimilið á Húsavík, ber ábyrgð á rekstri þess og mun gera áfram.

Byggingarkostnaður hjúkrunarheimila

Sumarið 2022 var skipaður starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra með það hlutverk að greina eignarhald og fjármögnun á húsnæði hjúkrunarheimila. Farið var yfir eignarhald á hverju heimili auk framlags til viðhalds og endurbóta á einstaka heimili. Af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila greiðir ríkissjóður 85% og sveitarfélög 15% auk þess að sveitarfélögunum ber að útvega lóð undir byggingar að kostnaðarlausu. Í skýrslunni er enn frekar hnykkt á því að ríkissjóður ber einn ábyrgð á veitingu þjónustunnar.

Í kjölfar niðurstöðu starfshópsins var skipaður vinnuhópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis til að vinna að sameiginlegri útfærslu á breyttu fyrirkomulagi fasteignamála hjúkrunarheimila og gera tillögu að nauðsynlegum lagabreytingum í kjölfarið. Í skýrslu vinnuhópsins er kveðið á um sveitarfélögin verða leyst undan skyldum sínum um sama efni og framkvæmdasjóður aldraðra verður lagður niður.

Ráðstöfun á skattfé almennings

Farið var í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík. Búið er að grafa fyrir grunni þess. Ekkert tilboð barst í byggingu heimilisins innan tilskilins frest í verkið. Kostnaður við verkefnið, eins og það blasir við okkur, væri óskynsamleg ráðstöfun á skattfé. En meginmarkmið með nýju fasteignafyrirkomulagi hjúkrunarheimila er m.a. að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða vegna fjárfestinga þannig að aðstaða sé til staðar í samræmi við þjónustuþörf hverju sinni, auka sveigjanleika og sérhæfingu við byggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Sömuleiðis að tryggja að fjármunir séu til staðar til að hægt sé að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur og koma í veg fyrir viðhaldsskuld. En almennt gert er ráð fyrir að rekstraraðili hjúkrunarheimilis og eigandi húsnæðis séu sitthvor aðilinn.

Sem minnstar tafir

Æskilegt er að aldraðir eigi kost á hjúkrunarþjónustu í sinni heimabyggð. Húsavík er kjarni þessarar þjónustu. Því þarf að tryggja að tafir og seinkun á uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík verði sem allra minnstar. Nú þarf að hafa hraðar hendur og vanda sig. Verkefnið þarf að hugsa upp á nýtt með nýjum útfærslum.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings

 

Lesa meira

Lokaorðið - Um formæður

Eftir því sem þroskinn færist yfir mig, reikar hugurinn meira til formæðra minna. Íslenskt samfélag hefur á ógnarhraða tekið mikilum breytingum og því getur verið erfitt að setja sig í spor þeirra. Lífsstrit, örlög og lífsganga þeirra var afar ólík okkar. Stýrðu þær lífi sínu og hvaða tækifæri höfðu þær í raun?

Halldóra langalangamma mín var fædd 1863 á Brettingsstöðum á Flateyjardal. Hún var gift Sigurgeir Sigurðssyni frá Uppibæ í Flatey. Flateyjardalur liggur á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, þekktur fyrir mikið vetrarríki og samgöngur því oft torveldar, sem er ástæða þess að dalurinn fór í eyði þegar búsetu lauk á Brettingsstöðum árið 1953.

Bærinn, sem stendur enn, er við sjóinn og stutt yfir í Flatey á Skjálfanda og því matarkista ágæt. Bæði var þar að finna fiska og fugla auk blessaðrar sauðkindarinnar sem löngum var uppistaða í fæðu okkar Íslendinga. Langir, kaldir og dimmir vetur í einangrun, en náttúrufegurðin alls ráðandi á sumardögum. Þangað var ekki auðsótt að fá lækni þótt börn veiktust.

Það þurfti útsjónasemi og seiglu að búa við svona einangrun. Tryggja varð að allir hefðu til hnífs og skeiðar og hlý föt á köldustu dögunum. Sjaldan hefur hún sett sjálfa sig í fyrsta sætið. Halldóra eignaðist 16 börn. Af þeim náðu 10 fullorðinsaldri, en tvö þeirra dóu úr taugaveiki um tvítugt. Hversu þung hafa spor foreldranna verið að fylgja 8 börnum sínum til grafar? Langamma mín Emilía fædd 1903 var næst yngst barna þeirra hjóna.

Afkomendur Halldóru eru 334, atgervismenn og fallegt sómafólk þótt ég segi sjálf frá.

 

Lesa meira

Ný heilsugæslustöð HSN í Sunnuhlíð í gagnið á morgun mánudag

Ný heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands verður opnuð í Sunnuhlíð á Akureyri á morgun mánudag, 19. febrúar. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu undanfarin misseri og þá var reist nýbygging við húsið. „Við hlökkum mikið að taka í heilsugæslustöðina í notkun en þetta er í fyrsta sinni í sögu heilsugæslunnar á Akureyri sem starfsemin verður í húsnæði sem sérhannað er  að þörfum hennar. Það var sannarlega kominn tími til að ná því takmarki eftir áratuga langa sögu heilsugæslu í bænum,“ segir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN.

Lesa meira

Vísindafólkið okkar - Fyrrum sauðfjárbóndi, verkefnastýra og doktor sem bakar ekki pönnukökur

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólki Háskólans á Akureyri. Hulda Sædís, lektor við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum er vísindamanneskja febrúarmánaðar. 

Áföllin og ávextirnir 

Hulda Sædís rannsakar eflingu og vöxt í kjölfar áfalla sem útleggst á ensku sem post-traumatic growth. Hugtakið felur í sér jákvæða, sálfræðilega breytingu hjá einstaklingi eftir mikla erfiðleika og áföll. Í því felst aukinn persónulegur styrkur, aukin ánægja í samböndum við annað fólk og jákvæð breyting á lífssýn þar sem viðkomandi kemur auga á nýja möguleika í lífinu. Þrátt fyrir að lífsreynslan sem um ræðir sé neikvæð í sjálfri sér, hefur hún þegar upp er staðið ákveðinn tilgang fyrir viðkomandi.Rannsóknir Huldu hafa snúið að eflingu og vexti meðal fólks sem hefur orðið fyrir mismunandi tegundum áfalla. Undanfarin ár hefur hún lagt áherslu á að rannsaka eflingu og vöxt meðal kvenna sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum. 

Lesa meira

Ekkert svar til Norðurorku frá Orkustofnun við erindi sem sent var inn fyrir 15 mánuðum

„Þetta er mjög bagalegt og setur okkur í erfiða stöðu. Málið hefur dregist úr hömlu og við getum takmarkað aðhafst á meðan við fáum ekki staðfestingu á því að við megum halda áfram með þetta verkefni á svæðinu. Þetta eru óskiljanleg vinnubrögð og í engu samræmi við stjórnsýslulög sem kveða á um að erindum sé svarað innan ákveðinna tímamarka og ef ekki er svarað þá sé aðili máls upplýstur um það hver ástæðan fyrir því er,“ segir Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku.

Norðurorka hefur kvartað við umhverfis- orku og loftslagsráðherra vegna tafa sem orðið hafa á svörum Orkustofnunar vegna nýtingarleyfis Norðurorku fyrir Ytri-Haga. Þar hafa verið boraðar rannsóknarholur til að geta staðsett væntanlegar vinnsluholu á svæðinu.  Norðurorka sótti um nýtingarleyfi til Orkustofnunar í október árið 2022. Engin svör hafa borist 15 mánuðum síðar  um hvort nýtingarleyfið fáist né heldur hverju það sæti að stofnunin svarar ekki. Norðurorka hefur áskilið sér rétt til að kæra málsmeðferð Orkustofnunar vegna þessarar málsmeðferðar.

Málið á borði ráðherra

„Við kvörtuðum til ráðherra og málið er statt á hans borði núna“ segir Eyþór. Hann nefnir að í mars í fyrra hafi Orkustofnun verið skilað umbeðnum gögnum varðandi nýtingarleyfið en síðan hafi hvorki heyrst þaðan hósti né stuna.  „Það hefur ekki verið beðið um viðbótargögn frá okkur, þannig að ekki strandar á því, við höfum svarar öllum þeim spurningum sem stofnun hefur beint að okkur skilmerkilega og sent gögn sem beðið var um á sínum tíma, án þess þó að niðurstaða fáist eða hver er ástæða þessarar miklu tafa,“ segir Eyþór.

Hann bætir við að málið varði almannahagsmuni en mæta þurfi brýnni þörf á heitu vatni á svæði og bregðast við skortstöðu sem fer hratt vaxandi. „Það hefur allt verið keyrt hjá okkur í hvínandi botni  síðustu tvo vetur og má engu út af bregða að ekki komi til skerðinga á heitu vatni. Það er því mjög brýnt að við fáum leyfi til að halda áfram að vinna á svæðinu við Ytri-Haga

Lesa meira