Vettvangsakademíu fyrir kennslu og rannsóknir á sviði fornleifafræði, minjaverndar og menningarferðaþjónustu verður komið upp á Hofstöðum í Mývatnssveit. Þar verður boðið upp á fjölbreytt námskeið á meistara- og doktorsstigi og aðstöðu til þverfaglegra vettvangsrannsókna, tilrauna og þróunar til að byggja upp þekkingu á íslenskri menningarsögu og hagnýtingu hennar.
Vettvangsakademían er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Minjastofnunar og hlaut á dögunum styrk upp á 30.9 milljónir króna úr Samstarfi háskóla fyrir árið 2023. Alls var tæplega 1,6 milljarði króna úthlutað til 35 verkefna.
Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar segir á vef Þingeyjarsveitar að verkefnið hafi legið í loftinu lengi en farið formlega af stað í vetur þegar sótt var um styrkinn. Stórkostlegar fornminjar séu á Hofsstöðum enda verið stundaðar fornleifarannsóknir þar nær samfellt í 100 ár. Miðstöðin sé hugsuð sem suðupottur fræðslu og rannsókna í fornleifafræði og menningarþjónustu. Hugmyndin sé ekki ný af nálinni enda hafi verið til tveir alþjóðlegir vettvangsskólar í fornleifafræði upp úr aldamótum, einn á Hólum í Hjaltadal og hinn á Hofsstöðum.
Fyrstu nemarnir með haustinu
Fljótlega verður auglýst eftir verkefnisstjóra, hann á meðal annars að útfæra og þróa starfsemi miðstöðvarinnar, gera starfsáætlun til 10 ára og finna lausnir til að gera verkefnið sjálfbært til framtíðar. Stefnt er að fyrsta tilraunanámskeiðinu á haustmánuðum og á Rúnar von á því að færri komist að en vilja enda mikil þörf fyrir aðstöðu til vettvangsnáms í fornleifafræði. Stefnt er að því að nemarnir dvelji á Hofsstöðum mánuð í senn.
Fornminjar og ferðamenn
Verkefnið er virkilega jákvætt fyrir ferðaþjónustuna í Mývatnssveit enda á meðal annars að þróa námsleiðir og rannsóknarverkefni sem tengja saman fornleifafræði og ferðamálafræði. Fornleifar og nýting þeirra er háð ýmsum lagalegum skyldum og takmörkunum og samþætting þekkingar á fornleifa- og ferðamálafræði er mikilvægur grundvöllur til sjálfbærrar og ábyrgrar nýtingu þeirra í ferðaþjónustu.