Fréttir

Mikið hjartans mál að vandað sé til verka við kennslu barna

„Árangurinn byggist fyrst og fremst á því hvað nemendur er áhugasamir, jákvæðir og vinnusamir, en það allt verður að vera til staðar ef árangur á að nást,“ segir Katrín Mist Haraldsdóttir sem ásamt Ingibjörgu Rún Jóhannesdóttur á og rekur DSA Listdansskóla Akureyrar. Stúlkur úr skólanum tóku á dögunum þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins Dance World Cup í Borgarleikhúsinu. Þær komu heim með gull í flokknum söngur og dans auk þess sem fimm silfur og tvö brons. Yngsti keppandinn var einungis 6 ára og kom norður með þrenn verðlaun. Heimsmeistaramótið verður haldið í Prag í sumar, og hafa öll atriði DSA unnið sér inn keppnisrétt. Þetta er í fimmta sinn sem DSA - Listdansskóli Akureyrar tekur þátt í Dance World Cup en þar koma saman rúmlega 100.000 börn frá 50 löndum. 

Lesa meira

Tímamótasamningur um nám í heyrnarfræðum á háskólastigi

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ), Háskólinn í Örebro í Svíþjóð og Háskólinn á Akureyri hafa gert með sér samning sem gerir kleift að bjóða upp á háskólanám í heyrnarfræðum í fyrsta sinn hér á landi. Samningurinn var undirritaður í dag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir samninginn marka tímamót: „Það hefur verið skortur á sérþjálfuðum heyrnarfræðingum hér á landi. Nú má vænta þess að þeim fjölgi á næstu árum og að hægt verði að stórbæta þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu hér á landi.“

Lesa meira

Menningararfleifð Leikfélags Húsavíkur til fyrirmyndar

-segir Stefán Sturla Sigurjónsson, leikstjóri

Lesa meira

„Hæ-Tröllum“ haldið í áttunda sinn

Fjórir karlakórar sameina krafta sína á söngskemmtun í Glerárkirkju næstkomandi laugardag 2.mars, kl. 16:00. Mótið ber yfirskriftina „Hæ-Tröllum“ og er þetta í áttunda sinn sem Karlakór Akureyrar-Geysir stefnir karlakórum  til Akureyrar og nú í samstarfi við Karlakór Eyjafjarðar.

„Hæ-Tröllum“ var fyrst haldið árið 2006 og hefur síðan verið haldið með reglulegu millibili. Þátttakendur að þessu sinni eru, auk Karlakórs Akureyrar-Geysis og Karlakórs Eyjafjarðar; Karlakór Kópavogs og Karlakór Dalvíkur.

Kórarnir flytja nokkur lög hver fyrir sig og síðan sameina kórarnir krafta sína og flytja nokkur klassísk lög úr sögu íslensks karlakórasöngs. Þarna gefst kostur á að heyra og sjá stóran og öflugan kór -  150-160 söngmanna.

„Hæ-Tröllum“ hefur verið einn af föstum liðum í fjölbreyttu starfi Karlakórs Akureyrar-Geysis. Á þessu starfsári stóð kórinn að jólatónleikum með Karlakór Eyjafjarðar og á „Hæ-Tröllum“ sameinast á Akureyri söngmenn við Eyjafjörð og gestir frá Kópavogi. Vortónleikar kórsins verða svo haldnir í Ketilhúsinu á Akureyri 24. apríl og  í Glerárkirkju 1. maí.

Lesa meira

GA smíðajárn og Ísrör opna á Lónsbakka við Akureyri

Þegar nær dregur vori munu hafnfirsku fyrirtækin Guðmundur Arason ehf., GA Smíðajárn og Ísrör ehf. opna sameiginlega verslunar- og lageraðstöðu á Lónsbakka á Akureyri í því húsi sem áður hýsti Húsamiðjuna um langt skeið.

Lesa meira

Tillaga að tröppum niður Stangarbakkann á Húsavík

Tillaga að nýjum tröppum á gönguleiðinni af Stangarbakkanum á Húsavík ofan í fjöru litu nýlega dagsins ljós. Tillagan er unnin af fyrirtækinu Faglausn sem vann þær með danskri arkitektastofu Arkitektladen. Eigandi hennar er Øjvind Andersen arkitekt sem Almar Eggertsson  einn eigenda Faglausnar kynntist á námsárum sínum í Danmörku.

Lesa meira

Akureyrarkirkja - Hafnasamlagið styrkir rekstur salerna

Sóknarnefnd Akureyrarkirkju hefur óskað eftir stuðningi Hafnasamlags Norðurlands til að fjármagna framkvæmdir við þak safnaðarheimilisins.  Í erindinu þakkar sóknarnefndin jafnframt fyrir árlegan styrk HN við rekstur salernis í Akureyrarkirkju.

Hafnastjórn getur ekki orðið við því að veita styrk til viðhalds á fasteignum kirkjunnar segir í fundargerð.  Varðandi rekstur salerna í Akureyrarkirkju samþykkir hafnastjórn  aftur á móti að styrkja sóknarnefnd fyrir sumarið 2024 um 300 þúsund krónur.

 

Lesa meira

Sparisjóður Höfðhverfinga og Þór/KA í samstarf

Sparisjóður Höfðhverfinga hefur undirritað samstarfssamning við kvennalið knattspyrnudeildar Þórs/KA.

Sparisjóðurinn leggur áherslu á að styrkja verkefni á sviði íþrótta- og tómstundamála í nærumhverfi sínu en hlutverk Sparisjóðsins er að standa vörð um hagsmuni landsmanna, styrkja innviði samfélagsins og styðja við félags- og atvinnulíf í heimabyggð.

,,Við fögnum samstarfi við Sparisjóðinn sem felur í sér mikilvægan stuðning við metnaðarfullt uppbyggingarstarf félagsins. Það eru spennandi tímar framundan þar sem mikið af ungum og efnilegum stúlkum eru að fá að njóta sín", segir Guðrún Una Jónsdóttir ritari stjórnar Þórs/KA.

„Samstarf við kvennalið Þórs/KA er í takt við samfélagslega ábyrgð Sparisjóðsins þar sem við styðjum við íþrótta- og félagsstarf í nærumhverfi okkar. Við hlökkum til samstarfsins“, segir Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga.

 

Lesa meira

Skrifað undir styrktarsamning milli Akureyrarbæjar og Skíðafélags Akureyrar vegna Andrésar Andarleikana 2024-2028

Í gær  var skrifað undir styrktarsamning milli Akureyrarbæjar og Skíðafélags Akureyrar vegna Andrésar Andarleikana 2024-2028 en í ár verða þeir haldnir 24.-27. apríl og er gert ráð fyrir að þúsundir gesta heimsæki bæinn af því tilefni.

Markmiðið með samningnum er að styðja við Skíðafélagið þegar kemur að umgjörð og framkvæmd Andrésar Andarleikanna í Hlíðarfjalli.

Andrésar Andarleikarnir eru fyrir börn á aldrinum 4-15 ára. Um er að ræða eitt stærsta skíðamót landsins með um 1.000 keppendum ár hvert. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 2.500-3.000 manns sæki leikana. Sérstök Andrésarnefnd Skíðafélags Akureyrar sér um framkvæmd mótsins.

Andrésar Andarleikarnir fara að jafnaði fram frá miðvikudegi til laugardags í apríl, í sömu viku og sumardagurinn fyrsti.

Styrktarsamningur Akureyrarbæjar og Skíðafélag Akureyrar vegna Andrésar Andarleikanna 2024-2028.

Lesa meira

Vegagerðin semur við Mýflug um flug frá Reykjavík til Húsavíkur út mars

Vegagerðin hefur samið við flugfélagið Mýflug um flug frá Reykjavík til Húsavíkur og einnig til Vestmannaeyja út mars.  Flognar verða fjórar ferðir í viku á tímabilinu 1. mars til 31. mars. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Flogið verður þrjá daga í viku milli  Húsavíkur og Reykjavíkur. Fyrirkomulag á farmiðabókunum verður óbreytt frá því sem verið hefur á undanförnum vikum.

Flugvélar af gerðinni Beechcraft King Air B200, sem er 9 farþegasæta vél, og Jetstream 32, sem tekur 19 farþega í sæti, verða notaðar í þetta verkefni.

Flugleiðir þessar eru styrktar sérstaklega af ríkinu til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á þessum leiðum á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðunum.

 

Lesa meira

Kaldbakur EA 1 nýmálaður og í topp standi

Lokið er við að mála ísfisktogara Samherja, Kaldbak EA 1, í Slippnum á Akureyri, auk þ‏ess sem unnið var að ‎ýmsum fyrirbyggjandi endurbótum. Ekki er langt síðan lokið var við svipaðar endurbætur á systurskipum Kaldbaks, Björgu EA 7 og Björgúlfi EA 312.

Sigurður Rögnvaldsson verkefnastjóri hjá útgerðarsviði Samherja segir að verkið hafi tekið um fjórar vikur og allar tímaáætlanir hafi staðist. Auk starfsfólks Slippsins komu nokkrir verktakar að endurbótunum. Hann segir mikilvægt að allur undirbúningur slíkra verkefna sé vandaður.

Skipin í góðu ásigkomulagi

„Skrokkur skipsins var málaður, einnig millidekk og lestarrými. Kaldbakur er sjö ára gamalt skip og þess vegna þótti skynsamlegt að ráðast í nokkrar endurbætur, svo sem upptekt á aðalvél og lagfæringar á stýrisbúnaði. Þessi systurskip hafa reynst afskaplega vel í alla staði en með tímanum þarf auðvitað að huga að fyrirbyggjandi endurbótum og þeim er nú lokið. Við getum hiklaust sagt að skipin séu í topp standi, þökk sé útgerð og áhöfnum skipanna.“

Skrúfan máluð til að draga úr olíunotkun

 

Kaldbakur í flotkví Slippsins á Akureyri

Skrúfan á Kaldbak var máluð með hágæða botnmálningu, sem ætlað er að draga úr olíunotkun. Skrúfan á Björgu EA var einnig máluð fyrir nokkru síðan með sömu málningu.

„Yfirleitt eru skrúfur skipa ekki málaðar en tilraunir með það hafa verið gerðar á undanförnum árum. Málningin hindrar að gróður festist á skrúfunni, sem eykur viðnám hennar í sjónum og þar með olíunotkun. Það er vissulega erfitt að mæla árangurinn nákvæmlega en við höfum trú á að þessi hágæða málning komi til með að skila tilætluðum árangri,“ segir Sigurður Rögnvaldsson.

 

Vandað til verka á öllum sviðum 

 

 

Lesa meira

Hagkvæmast að loka leikskólum í júlí þegar minnsta nýtingin er

Fræðslu- og lýðheilsuráð getur ekki orðið við beiðni sem barst fá mannauðsstjóra Sjúkrahússins á Akureyri um endurskoðun á lokun leikskóla bæjarins yfir sumarmánuðina.   Lokun leikskóla í júlí hefur valdið vandræðum með mönnun á SAk.

Lesa meira

Skoða uppsetningu á nýju gámasalerni fyrir sumarið

Einungis tvö salerni eru fyrir almenning í Lystigarðinum á Akureyri, „og löngu vitað að þau duga ekki fyrir allan þann fjölda sem garðinn sækir,“ segir Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri á umhverfisdeild.

Lesa meira

Leikdeild Eflingar í Reykjadal frumsýnir Í gegnum tíðina n.k föstudagskvöld

Leikdeild Umf. Eflingar frumsýnir leikritið  Í gegnum tíðina eftir Hörð Þór Benónýsson í félagsheimilinu Breiðumýri þann 1. mars n.k. kl. 20:00, þar sem sögð er saga íslenskrar bændafjölskyldu.  Fjölskyldumeðlimir lenda í hinum ýmsu aðstæðum og fléttast fjölmörg lög frá árunum 1950-1980 inn í sýninguna.

Lesa meira

Akureyrarbær samþykkir fyrstu stafrænu brunavarnaáætlun landsins

Brunavarnaáætlun Slökkviliðs Akureyrar til ársins 2027 var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 2. febrúar sl. Áætlunin er fyrsta stafræna brunavarnaáætlun landsins og markar samþykkt hennar stór tímamót í stafrænni lausn fyrir slökkviliðin.

Lesa meira

Út fyrir sviga

Lesa meira

Smíðaði hundrað myntmottur fyrir Frost í tilefni af Mottumars 2024

Næstkomandi föstudag, 1. mars, hefst Mottumars - hið árlega átak Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga þess um allt land. Mottumars er hvatningarátak til karla um að halda vöku sinni gagnvart þeim vágesti sem krabbamein er og í ár er lögð áhersla á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum. Jafnframt hefur Mottumars það að markmiði að safna fjármunum til þess að styrkja krabbameinsfélögin í landinu í sínu þarfa og mikilvæga starfi.

Lesa meira

Anna María með brons í Króatíu

Góð frammistaða Akureyringa var á Evrópumeistaramótinu í bogfimi í Króatíu í síðustu viku.

Lesa meira

Framtíðin felst í nálægðinni

Á fimmtudaginn kemur býður Háskólinn á Akureyri, í samvinnu við námsráðgjafa grunnskóla Akureyrarbæjar, grunnskólanemum að heimsækja skólann á Starfamessu og kynnast þar fyrirtækjum á svæðinu

Lesa meira

Vélfag opnar fimmtu starfsstöðina

Vélfag heldur áfram að stækka og opnar fimmtu starfsstöðina á Íslandi sem er staðsett við Njarðarnes 3-7 á Akureyri, þar sem Trésmiðjan Börkur var áður til húsa. Verksmiðjan sem er 2541,5 fm á stærð mun hýsa framleiðslu, lager og samsetningu auk skrifstofur.  

Lesa meira

Húðvaktin er ný fjarlækningaþjónusta í húðlækningum

Húðvaktin er fjarlækningaþjónusta sem opnaði þann 3. janúar síðastliðinn og er fyrsta þjónusta sinnar tegundar á Íslandi. Húðvaktin býður fólki sem þarf á aðstoð sérfræðings í húðlækningum að halda að fara inn á hudvaktin.is og skrá þar beiðni til læknis. Fyrir beiðnina þarf tvær myndir og lýsingu á þeim húðeinkennum sem eru til staðar, en því næst er beiðnin send til afgreiðslu hjá sérfræðingi í húðlækningum. Innan 48 klukkustunda svarar húðlæknir og setur upp meðferðarplan sem eftir atvikum getur m.a. falið í sér lyfjameðferð, frekari rannsóknir á stofu eða tíma á skurðstofu.

Lesa meira

Hafdís Íslandsmeistari í Rafhjólreiðum 2024

Um helgina fór fram fyrsta Íslandsmótið í Rafhjólreiðum þar sem keppendur hjóluðu á  ,,trainerum” sem eru þannig búnir að þeir lesa hversu mörg vött hjólreiðamaðurinn framkallar með því að snúa sveifunum á hjólum sínum og skila því svo yfir í tölvuleikinn zwift sem notar það svo ásamt skráðri þyngd til að ákvarða hraðann sem keppandinn er á í leiknum.

Margir af bestu hjólurum landsins voru því sestir á keppnishjólin sín fyrir framan tölvuskjái á laugardagsmorguninn til að taka vel á því.

Lesa meira

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Optimar

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu Optimar International AS (Optimar) af þýska eignarhaldsfélaginu Franz Haniel & Cie. GmbH (Haniel). Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi.

Lesa meira

Lokaorðið - Fyrr en misst hefur.

Stundum þegar ég stend undir heitri sturtu eða hækka í ofnunum hugsa ég um hvað myndi gerast ef heita vatnið sem kemur úr iðrum jarðar gengur til þurrðar. „Láttu ekki ljósin loga né vatnið renna að óþörfu. Notaðu ekki meira en þú þarft.“ Þetta lífsstef foreldra minna hefur oft komið upp í hugann undanfarið. Þau lifðu byltinguna úr myrkri og kulda torfkofanna yfir í ljós og hita nútímans.

Á heimili mínu er til húsgang sem var smíðað árið 1917 og heitir servantur. Servantur er lítill skápur sem hafði að geyma vaskafat, tveggja lítra könnu fyrir vatn, sápustykki, lítið handklæði og þvottapoka. Servantur var inni í köldum herbergjum fólks og var bað- og snyrtiaðstaða þess tíma og langt fram á síðustu öld. Í dag er sjálfsagt að hafa tvö baðherbergi í húsum auk heitra potta í húsagörðum, upphituð bílastæði og raflýsingar allt um kring. En lífið er ekki sjálfsagt og lífsgæðin ekki heldur. Allt er í heiminum hverfult og getur snúist án fyrirvara. Það höfum við séð gerast á Suðurnesjum síðustu mánuði.

Við erum vanmáttug því náttúran er að hefja nýtt skeið sem við gleymdum að reikna með og enginn veit hvað framtíðin mun færa. En þó vanmáttug séum getum við þó gert eitt, sama hvar á landinu við búum. Við getum ígrundað hvernig við notum orkugjafana okkar því þeir eru hvorki sjálfgefnir né óþrjótandi. Við getum gengið betur um orku náttúrunnar, því enginn veit hvað átt hefur - fyrr en misst hefur.

Lesa meira

89 brautskráðust frá Háskólnum á Akureyri

Vetrarbrautskráningarathöfn fór fram í Háskólanum á Akureyri í annað sinn nú um liðna helgi. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarskírteini sín í október 2023 og þeim sem brautskráðust 17. febrúar síðastliðinn. Alls brautskráðust 89 kandídatar af tveimur fræðasviðum í október og febrúar. Af þeim brautskráðust 19 kandídatar frá Háskólasetri Vestfjarða og er þeim boðið á hátíðlega athöfn á Hrafnseyri þann 17. júní 2024.

Í ræðu sinni fjallaði Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri, meðal annars um eflingu og vöxt háskólans. „Til gamans má geta að stúdentum HA hefur fjölgað um rúm 60% á undanförnum áratug. Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að hér ríki persónulegt og sterkt námssamfélag. Ég vona að það sé einmitt ykkar upplifun af háskólagöngu ykkar hér. Samfélagið og sú umgjörð sem það skapar breytist hratt og í dag er staðreyndin sú að stúdentar halda ansi mörgum boltum á lofti, með fjölbreyttar áskoranir og áreiti úr öllum áttum.“

Lesa meira

Allskonar fólk, jafnrétti og vöfflur með rjóma

„Það sem stóð upp úr varðandi Jafnréttisdaga í ár var hve einstaklega fræðandi þeir voru. Það var mikilvægt að beina kastljósinu að málefnum fólks af erlendum uppruna og naut ég þess mjög að heyra bæði sjónarhorn stjórnmálafólks af erlendum uppruna á rafræna opnunarviðburðinum og sjónarhorn kvenna af erlendum uppruna á málþingi um jaðarsetningu í HA. Kynning Kristínar Hebu á stöðu fatlaðra var sláandi og vona ég að unnið verði með niðurstöður skýrslu hennar til að bæta stöðu þeirra. Ég held að við höfum öll lært eitthvað nýtt á Jafnréttisdögum sem við getum tekið með okkur inn í árið.“ segir Sæunn Gísladóttir, fulltrúi HA í stýrihóp Jafnréttisdaga, um hvað henni fannst standa upp úr núna í ár.

Árlega standa allir háskólar landsins fyrir Jafnréttisdögum og hafa þeir verið haldnir frá árinu 2009. Þema ársins 2024 var inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum. Í HA voru haldnir fjórir viðburðir í tengslum við dagana sem voru bæði vel sóttir og mörg sem nýttu sér að horfa á þá í streymi. Efni fyrirlestra var jaðarsetning fólks af erlendum uppruna, ADHD í námi og daglegu lífi og staða fólks með örorkumat, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk. Hægt er að finna upptökur á Facebooksíðu Jafnréttisdaga og frekari upplýsingar um Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild og formaður jafnréttisráðs HA, segir að í allri baráttu fyrir jafnrétti sé mikilvægt að búa til vettvang fyrir fólk sem upplifir mismunun og jaðarsetningu í samfélaginu til að segja frá þeirra reynslu. „Á Jafnréttisdögum er lagt upp úr því að hafa fjölbreytta viðburði þar sem vakin er athygli á málefnum ólíkra hópa, bæði út frá niðurstöðum rannsókna frá sérfræðingum á sviðinu en einnig út frá sjónarhorni einstaklinganna sjálfra. Mér finnst þetta hafa tekist nokkuð vel í ár þökk sé öllu fólkinu sem gaf tíma sinn til þess að taka þátt í þessu með okkur,“ bætir hún við.

Skipulagning og framkvæmd daganna gekk vel samkvæmt Sæunni en ásamt henni í stýrihóp eru tveir jafnréttisfulltrúar frá Háskóla Íslands og verkefnisstjóri Jafnréttisdaga. „Við skipulögðum heildarumgjörðina og sameiginlegu viðburði háskóla landsins, svo sem rafrænu opnunina og viðburðinn Orð og ímyndir stríðs. Við verkefnalistann í ár bættist ný vefsíða Jafnréttisdaga sem við hlutum styrk fyrir í samstarfssjóði háskólanna á vegum háskólaráðuneytisins. Það var mjög gleðilegt að fá í fyrsta sinn vefsíðu undir dagana og geta miðlað betur upplýsingum um þá þar. Það var sérstaklega ánægjulegt hve góðir og fjölbreyttir viðburðirnir voru í HA og ég er afar þakklát þátttakendum sem komu og gáfu tímann sinn, meðlimum Jafnréttisráðs sem stóðu fyrir vöfflukaffi fyrir tæplega 80 manns, nemendum og starfsfólki, sem sóttu viðburðina af miklum áhuga á Akureyri,“ segir Sæunn að lokum.

Við óskum öllum til lukku með vel heppnaða Jafnréttisdaga og hvetjum öll til að fylgjast með áframhaldandi vinnu á nýju vefsvæði Jafnréttisdaga.

Lesa meira

Settu upp tölvustofu í ABC skóla í Burkina Faso

„Ferðin gekk vel í alla staði, markmiðið var vel skilgreint og við náðum að gera það sem við ætluðum okkur,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson sem kom i byrjun vikunnar heim eftir ferð til Afríkuríkisins Burkina Faso.

Þar setti hann ásamt ferðafélögum upp tölvustofu í Ecole ABC de Bobo sem er ABC skóli rekin í næst stærstu borg landsins, Bobo Dioulasso. Tölvunum hafði Adam safnað á Íslandi á liðnu ári, um 100 borðtölvum sem skipt var út í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir fartölvur og þá fékk hann einnig tölvur, skjávarpa og fleira frá Sýn, Vodafone, Menntaskólanum í Tröllaskaga , Origo Lausnum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Gaflara og Tengi.

Lesa meira