Um eitt þúsund gestir litu við í Svartárkoti

Um eitt þúsund manns lögðu leið sína í Svartárkot síðastliðinn sunnudag þegar haldið var upp á Beint…
Um eitt þúsund manns lögðu leið sína í Svartárkot síðastliðinn sunnudag þegar haldið var upp á Beint frá býli daginn. Myndir aðsendar

Við vissum ekki við hverju var að búast þar sem kalt var í veðri og blautt en fjöldi gesta kom okkur svo  sannarlega skemmtilega á óvart.  Stemningin var líka svo góð,  jákvæðni og gleði áberandi og þolinmæði gagnvart því að þurfa að bíða í röð eftir afgreiðslu,“ segir Guðrún Tryggvadóttir bóndi á Svartárkoti en þar var um liðna helgi tekið á móti gestum í tengslu við viðburðinn Beint frá býli dagurinn. Sá dagur var haldinn í öllum landshlutum, gestum bauðst að heimsækja einn þátttakenda í samtökunum og fræðast um framleiðsluna auk þess sem fleiri aðilar voru með sinn varning til sölu.  

 

„Það var boðið upp á hágæðavörur frá mögnuðum framleiðendum hér á Norðausturlandi og það var var einstaklega ánægjulegt að vinna með þeim að þessum degi.   Það er greinilega mikill áhugi á vörum beint frá býli og sívaxandi áhugi fólks á því að vita hvaðan maturinn kemur,“ segir Guðrún.

Vel heppnaður dagur

Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla segir daginn svo sannarlega hafa stimplað sig inn sem árlegan viðburð, hann var nú haldinn í annað sinn og var vel heppaður líkt og í fyrra. Ríflega þriðjungur félagsmanna í Beint frá býli eða Samtökunum smáframleiðenda tók þátt á mörkuðum sem efnt var til að um helmingur þeirra er á lögbýli. Veðurfar var misjafnt milli landshluta, allt frá því að vera með ágætum og upp á aftakaveður sem vissulega hafði áhrif á mætingu. Í allt heimsóttu um 4.500 manns þá bæi sem tóku þátt, þar var voru um eitt þúsund sem komu við í Svartárkoti.

Umferð eins og á Miklubraut síðdegis á föstudegi

„Í raun hefði meira ekki endilega verið betra, því þá hefði hreinlega verið of troðið. Umferðin um hálendis- og fjallvegi að býlum gestgjafanna leit út eins og að hreppaflutningar stæðu yfir eða að maður væri staddur á Miklubrautinni síðdegis á föstudegi. Ætli við þurfum ekki að bjóða upp á sætaferðir næst,“ segir Oddný Anna. „Sala félagsmanna var að jafnaði eftir því og heyrði ég af félagsmanni sem seldi fyrir yfir hálfa milljón á þessum þremur klukkutímum!.“

Fjölmargir smáframleiðendur matvæla mættu með varning sinn í Svarárkot en greinilegt er að almenningur hefur vaxandi áhuga á að versla við þá sem búa til matvæli á býlum sínum.


Athugasemdir

Nýjast