Fræðsluelskandi doktor með hjartað í fyrirrúmi

Margrét með Birni, manninum sínum, í göngu við Bræðrafell  Myndir Aðsendar
Margrét með Birni, manninum sínum, í göngu við Bræðrafell Myndir Aðsendar

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Margrét Hrönn Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, er vísindamanneskja aprílmánaðar.

Dýrmætur tími bæði heima og að heiman

„Upphafssenan í lífi mínu felur í sér bátsferð í gegnum ísilagðan fjörð. Ég fæddist á Sjúkrahúsinu á Akureyri árið 1965 en fór svo heim til Ólafsfjarðar með póstbátnum Drangi,“ segir Margrét um fyrstu dagana sína. Margrét ólst upp á Ólafsfirði og líkt og mörg börn í sjávarplássum lék hún sér úti frá morgni til kvölds. „Þegar ég var lítil var ég alltaf útivið, uppi í fjalli eða úti í snjónum og seinna meir fór ég að vinna í fiskinum.“ Útiveran og fjöllin hafa fylgt Margréti alla tíð og í dag ferðast hún víða með eiginmanninum til að njóta náttúrunnar. Þau hafa meðal annars tekið þátt í Worldloppet skíðagöngukeppnum og þar á meðal Fossavatnsgöngunni hér heima. „Ég er alls konar á alls konar skíðum og er yfirleitt til í flest. Örverpinu mínu tókst meðal annars að plata mig í liðasprett á landsmóti í gönguskíðum þar sem við lönduðum silfri.“

Margrét lauk BSc-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Að grunnnámi loknu flutti hún til Bandaríkjanna með fjölskyldunni og bjó þar í sjö ár. „Fyrstu árin bjuggum við í Madison, Wisconsin, þar sem ég var heima með ungar dætur okkar á meðan ég undirbjó mig fyrir bandarísk starfsréttindi og inngöngu í framhaldsnám. Árið 1997 fluttum við til Buffalo í New York-ríki, þar sem ég hóf MS-nám sem klínískur sérfræðingur í endurhæfingarhjúkrun með áherslu á hjartasjúklinga“. Margrét lýsir þessum tíma sem dýrmætum og það hafi aukið bæði víðsýni og skilning á öðrum menningarheimum.

„Eftir að meistaranámi lauk þróaði ég og innleiddi skipulagða fræðslu fyrir hjartasjúklinga á SAk og kom á fót göngudeildarmóttöku fyrir þennan sjúklingahóp. Þar fá sjúklingar einstaklingsmiðaðan stuðning, fræðslu og aðstoð við sjálfsumönnun og lífsstílsbreytingar. Sjálfsumönnun felur í sér allt það sem einstaklingur getur gert til að viðhalda heilsu, stjórna eða draga úr áhrifum sjúkdóms. Ég tel þessa fræðslu og stuðning hafa verið mikilvægt framfaraskref í þjónustu við hjartasjúklinga, þó að rannsóknir okkar bendi til að þarna sé enn svigrúm til úrbóta, sérstaklega hvað varðar aðgengi fólks í dreifbýli sem hefur oft takmarkað aðgengi að þessari þjónustu og endurhæfingu.“

Kennslan - gleði, áskoranir og spennandi framtíð

Margrét hefur kennt við Háskólann á Akureyri síðan 2001, ári eftir að fjölskyldan flutti til baka til Akureyrar frá Bandaríkjunum. Hún hafði þó tengst Hjúkrunarfræðideildinni fyrst nýútskrifuð árið 1990 þegar hún sinnti bæði bóklegri og klínískri kennslu. „Ég býst við að þá strax hafi áhugi minn á kennslu kviknað sem leiddi til þess að árið 2004 fékk ég fasta stöðu við skólann. Kennsla hefur ávallt verið mikilvægur hluti af mínu starfi sem hjúkrunarfræðingur – bæði í gegnum sjúklingafræðslu, sem ég hef lagt ríka áherslu á í klínísku starfi, og í kennslu nemenda. Ég stefndi þó aldrei markvisst að því að starfa alfarið innan háskólasamfélagsins. Framhaldsnám mitt, bæði á meistarastigi og síðar í doktorsnámi, sótti ég fyrst og fremst til að verða betri klínískur hjúkrunarfræðingur. En lífið – tækifærin og tilviljanir – hafa leitt mig hingað sem er frábært, því það er bæði skemmtilegt og gefandi að kenna.“

Kennslan hennar hefur þróast frá grunnnámi og færnikennslu yfir í sérhæfð fög um hjartasjúkdóma og heilbrigðisfræðslu. Næsta haust tekst hún á við stórt verkefni, sérhæft framhaldsnám í hjúkrun hjartasjúklinga – það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. „Undanfarið ár hefur farið mikil orka í að þróa og undirbúa þetta nýja nám. Þetta eru tímamót í menntun hjúkrunarfræðinga á þessu sviði og það eru spennandi tímar framundan, bæði fyrir stúdenta og kennara,“ segir Margrét um reynsluna af uppbyggingu þessarar nýju námsbrautar.

Margrét Hrönn segir að í síbreytilegu menntaumhverfi taki fjarnám sífellt meira pláss sem í felist bæði tækifæri og áskoranir. „Mér finnst spennandi og krefjandi að taka þátt í þessari þróun. Að mínu mati felur þetta í sér aukið aðgengi og skapar sveigjanleika og tækifæri fyrir stúdenta um allt land sem er afar mikilvægt. Á sama tíma krefst þetta þess að kennarar finni leiðir til að byggja upp tengsl, dýpt og samvinnu í námi. Heilt yfir er kennslan að gefa mér mörg tækifæri til að grúska, læra og miðla áfram sem ég tel verðmætt og mikil forréttindi.“

Hjartað í rannsóknunum

„Rannsóknin sem ég er hvað stoltust af heitir KRANS-rannsóknin – Lífsstíll, áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm.“ Segir Margrét aðspurð út í hennar rannsóknir. „Rannsóknin er sú fyrsta á Íslandi sem skoðar á heildrænan hátt stöðu áhættuþátta, meðferðar og sjálfsumönnunar hjartasjúklinga. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að markmiðum Evrópsku hjartasamtakanna varðandi lífsstíl og áhættuþætti er sjaldan náð meðal íslenskra sjúklinga. Meirihluti þátttakenda sem ekki eru með sykursýki er í verulegri hættu á að þróa hana innan tíu ára. Sjálfsumönnun reyndist ófullnægjandi hjá stórum hluta þátttakenda og fræðsluþörf mikil enn sex mánuðum eftir útskrift af sjúkrahúsi.“

Margrét bætir við: „Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að efla fræðslu og stuðning við sjálfsumönnun þessa sjúklingahóps, og jafnframt að þróa leiðir til að tryggja aðgengi að þjónustunni fyrir alla – óháð búsetu.“

Þá hefur Margrét í samstarfi við Hafdísi Skúladóttur, dósent við Háskólann á Akureyri, þróað og mótað mat á klínísku námi í hjúkrunarfræði. „Eitt af okkar stærstu verkefnum á því sviði er þróun CAT-NE (Clinical Assessment Tool for Nursing Education), staðlaðs rafræns matskerfis sem er notað til að meta klíníska frammistöðu hjúkrunarfræðinema. CAT-NE hefur verið í rafrænni notkun við Háskólann á Akureyri síðan 2018 og hefur reynst öflugt tæki til að styðja við markvissa og gagnreynda klíníska endurgjöf. Verkfærið er það eina sinnar tegundar sem er notað með samræmdum hætti í hjúkrunarfræðinámi á Íslandi og skapar þar með ákveðinn grunn fyrir bæði samanburð og þróun kennslu og mats. Með CAT-NE teljum við okkur hafa stuðlað að aukinni fagmennsku í mati á klínísku námi, tryggt gagnsæi í námsmati og eflt samtal og samvinnu milli stúdenta og kennara.“

Í takti við það sem hefur komið fram þá leggur Margrét áherslu á hjartað og heilsu því tengdu ásamt því að fræðsla sé í forgrunni. Varðandi framtíðina í hennar rannsóknum og áherslur segir hún að brýnustu rannsóknirnar snúi að því hvernig efla megi sjálfsumönnun og fræðslu hjartasjúklinga eftir útskrift, með áherslu á að bæta lífsstíl og draga úr áhættuþáttum. Framtíðarrannsóknir á þessu sviði ættu að beinast að því hvernig megi nýta fjarþjónustu og stafrænar lausnir til að veita fræðslu og stuðning, sérstaklega fyrir fólk utan þéttbýlis, og þannig tryggja jöfn tækifæri til heilsueflingar og bættra lífsgæða. Niðurstöður slíkra rannsókna geta nýst til að þróa skilvirkari úrræði, bæta lífsgæði og stuðla að meiri jöfnuði í heilbrigðisþjónustu.

Þessi áhersla á jöfnuð óháð búsetu sést ekki bara á vali Margrétar á fagi og rannsóknaráherslum því ljóst er að landsbyggðarhjartað slær sterkt þegar kemur að búsetu. Margrét sleit barnsskónum á Ólafsfirði og hún segir að í seinni tíð hafi fjölskyldan alltaf átt heimili á Akureyri þó að það hafi verið með hléum. Það er kannski ekki skrýtið að hún endi alltaf aftur á Akureyri þar sem Margrét segir útiveru og skíði sín aðaláhugamál eða eins og hún lýsir því: „Það er eitthvað við að vera úti í veðrinu, með víðsýni, kyrrð og hreyfingu, sem nærir líkama og sál. Að hafa snjó undir fótunum og leika sér úti er best.“

Margrét Hrönn að fagna silfrinu

 

Nýjast