Ferðaþjónustuaðilar hóflega sáttir við sumarið
Ferðaþjónustuaðilar á Húsavík sem Vikublaðið ræddi við eru hóflega sáttir nú þegar háannatíminn er að líða undir lok. Örlygur Hnefill Örlygsson, forstöðumaður Húsavíkurstofu segir að hljóðið í aðilum innan greinarinnar sé almennt þokkalegt þrátt fyrir að vertíðin hafi farið rólega af stað.
„Sumarið fór rólega af stað hjá þeim sem ég hef rætt við en þetta hefur gengið sig vel eftir því sem liðið hefur á sumarið. Júní var slakur hjá mörgum en júlí og það sem af er ágúst hefur verið fín umferð,“ útskýrir hann og bætir við að veðrið spili þar inn í.
Veðrið setur strik í reikninginn
„Veðrið hefur ekki verið með okkur í liði í ár og það hefur eflaust einhver áhrif líka en mér heyrist vera þokkalegt hljóð í flestum og menn bera sig vel en í byrjun sumars fann ég að fólk var áhyggjufullt,“ segir hann.
Skemmtiferðaskipin mikilvæg
Komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað talsvert í sumar og segir Örlygur að það hafi skilað sér vel inn í greinina. „Ég er einmitt að klára kynningarmyndband fyrir hafnirnar sem við munum senda út á skipafélögin til að vekja athygli á aðstöðunni okkar sem er alveg til fyrirmyndir,“ segir Örlygur og bætir við að farþegar skipanna séu að kaupa fjölbreytta þjónustu í bænum og á svæðinu í kring og það sé vel. Það sé meira að segja nokkuð um það að farþegar skipanna séu að fara í hvalaskoðun.
„Það hljómar kannski skrítið að koma af skipi og fara beint í bát en það er allt önnur vara og upplifun, þannig að það hefur verið að skila sér,“ segir Örlygur og bætir við að hann hafi tekið púlsinn á söfnunum fyrir skemmstu, það hafi einmitt verið á skipadegi og það hafi verið mjög góð aðsókn þann daginn, bæði í Hvalasafnið og Safnahúsið.
Rigning til skamms tíma, góð fyrir söfnin
Aðspurður segir Örlygur að rigningadagarnir séu að skila sér þokkalega í söfnin. „Ég get alveg vitnað til um það sjálfur verandi með Eurovision safnið. Þegar koma þessir rigningadagar, þá oftast skilar það vel inn í söfnin. Það hins vegar er ekki alltaf. Þegar þetta eru orðnir margir dagar í röð eins og við höfum verið að upplifa, þá er eins og fólk sé farið að tínast af svæðinu. Stöku dagar eru hins vegar ágætir fyrir söfnin,“ segir Örlygur og Heiðar Hrafn Halldórsson, verkefnastjóri hjá Hvalasafninu tekur undir það.
„Það er fullt í svona 2-3 daga en svo fer fólk að fara úr bænum,“ segir Heiðar Hrafn og bætir við að sumarið sé svona þokkalegt þegar allt kemur til alls og þakkar það komum skemmtiferðaskipa.
Hefði verði erfitt án skemmtiferðaskipa
„Mér hefur sýnt svona helst að skemmtiferðaskipin hafa haft meira vægi en áður og ég hef heyrt það víðar. Þegar það eru ekki skip, þá er bara til þess að gera rólegt. Það heyrir maður töluvert um. Þetta eru einhverjar fimmtíu komur skemmtiferðaskipa og ég er að heyra að það sé að hafa talsvert vægi. Ég hefði ekki boðið í þetta án skipana í þessu árferði. A.m.k. hjá okkur, þá erum við að fá talsvert af fólki úr skipunum og það gerir helling fyrir okkur, það verður að segjast eins og er,“ segir Heiðar Hrafn.
Dapurt vor en betra sumar
Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna tekur undir það að sumarið sé búið að vera þokkalegt miðað við hvað það fór hægt af stað, en júní brást að miklu leiti hjá böðunum.
,,Við erum sæmilega sátt. Ég á svo sem eftir að klára uppgjör eins og fyrir júlí en það virðist vera nokkurn veginn á pari við það sem var í fyrra en júní var töluvert undir því sem var á síðasta ári,“ segir Ármann og bendir á að þar hafi veðrið aðallega verið að stríða þeim. „Við þurftum að loka fimm daga í júní bara út af snjóstormi. Það er dýrt spaug á þessum árstíma en annars hefur þetta verið þokkalegt í júlí og vel framan af ágúst en eins og veðrið er eins og það er í dag þá væri ég til í að vera gera eitthvað allt annað, það verður að segjast eins og er,“ útskýrir hann.
Breytingar hjá Húsavíkurstofu
Örlygur segir að það séu breytingar framundan hjá Húsavíkurstofu þar sem hann sé sjálfur að fara í minna hlutfall hjá stofunni en hann er að fara einbeita sér að markaðsetningu fyrir hafnir Norðurþings.
„Hún Sólveig Ása Arnarsdóttir er að koma inn um mánaðamótin og tekur við því sem ég hef verið að baksa í daglegu stússi en ég verð meira í beinni markaðsetningu fyrir hafnirnar. Hjá mér er það á döfinni að ég er að búa til vef um hafnaraðstöðu Norðurþings sem verður settur í loftið í vetur. Svo er ég að gera kynningarmyndband um fyrir hafnirnar,“ segir hann.