Lætur gamlan draum rætast

Árný, eða Adda eins og hún er jafnan kölluð þóttist ekki vera mikil hlaupakona, en þó virðist hún dú…
Árný, eða Adda eins og hún er jafnan kölluð þóttist ekki vera mikil hlaupakona, en þó virðist hún dúkka upp í flestum víðavangshlaupakeppnum sem haldnar hafa verið á Norðurlandi undanfarið og virðist ekki blása úr nös. Hér hefur hún nýlokið við að hlaupa 17,6 km. í Skógarhlaupinu í júlí. Myndir/Aðsendar.

Árný Björnsdóttir, kennari við Borgarhólsskóla á Húsavík ætlar að láta gamlan draum rætast um helgina þegar hún tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fer á laugardag. Árný mun hlaupa hálfmaraþon, eða 21,1 km. og hleypur til styrktar MS-félagi Íslands.

Aðspurð hvort hún hafi stundað hlaupaíþróttina um langt skeið segir Árný að svo sé ekki en að hana hafi lengi langað til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu.

 Frestaðist vegna barneigna

„Ég er nú ekkert mikil hlaupakona en mig hefur alltaf langað til að taka þátt í þessu. Ég ætlaði að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir 14 árum síðan og byrjaði æfa af fullum krafti en komst þá að því að ég væri ófrísk af mínu fjórða barni og hætti þá við. Svo hef ég alltaf ætlað mér að gera þetta á hverju ári síðan og nú er loksins komið að því að ég láti verða af því,“ segir Árný í samtali við Vikublaðið og bætir við að undirbúningur sé nú á loka metrunum.

 Vinkonur létu slag standa

„Ég og vinkona mín, Berglind Júlíusdóttir ákváðum saman að láta verða af þessu síðasta haust, þannig að við erum búnar að vera hlaupa saman síðan,“ segir Árný og bætir við að hún sé klár í slaginn og full tilhlökkunar.

Það er enginn beygur í Árnýju þó hún sé ekki vön því að hlaupa þetta langar vegalengdir enda er hún vel undirbúin. „Ég hef aldrei hlaupið svona langt og hef verið að þjálfa mig smátt og smátt upp í þetta en ég hef hlaupið lengst 17 km. Það munar svo litlu upp í 21 km. að ég held að ég fari létt með þetta. Maður getur alveg hlaupið þetta, svo ég tali nú ekki um fyrir gott málefni,“ segir Árný glaðhlakkaleg en hún hleypur sem fyrr segir fyrir MS-félagið.

 Málefnið stendur henni nærri

Adda hlaupakona

Adda  er vel undirbúin fyrir átökin á laugardag. Hægra megin er hún  nýkomin í mark ásamt vinkonu sinni, Hönnu Skúladóttur í Jökulsárhlaupinu fyrir skemmstu.

 „Pabbi var með MS og sonur bróður míns var að greinast með sjúkdóminn í fyrra, svo eru bara margir með þennan sjúkdóm og full ástæða til að vekja athygli á starfsemi félagsins og styðja við það,“ segir Árný að lokum.

MS er einn algengasti taugasjúkdómurinn sem leggst á ungt fólk og greinast um 25 árlega á Íslandi, flestir á aldrinum 20-40 ára. MS-félagið veitir jafnt MS-greindum sem aðstandendum ráðgjöf, fræðslu og stuðning. 

Berglind vinkona Árnýjar og hlaupafélagi hleypur einnig hálfmaraþon og gerir það til styrktar Krabbameinsfélaginu. „Fyrir mér verður mikill sigur að ná að hlaupa hálfmaraþon í ágúst. Enn þá meiri sigur yrði að ná að safna pening og geta borgað Krabbameinsfélaginu smá tilbaka fyrir þá þjónustu og stuðning sem við fjölskyldan fengum í kringum veikindi og fráfall elsku bestu mömmu,“ segir á styrktarsíðu Berglindar.

Vinukonurnar hafa hvor um sig safnað vel á annað hundrað þúsund þegar þetta er ritað (á mánudagskvöld) en hægt er að heita á þær í gegnum heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins.

Smelltu hér til að heita á Árnýju

Smelltu hér til að heita á Berglindi


Athugasemdir

Nýjast