Hundagerði í notkun í Hrísey
Hundagerði hefur verið tekið í notkun í Hrísey. Svæðið er rúmlega 3000 fermetrar að stærð, girt af og er staðsett við Áhaldahúsið.
Lausaganga hunda er með öllu bönnuð í Hrísey en nú gefst hundaeigendum tækifæri til að leyfa hundum að hlaupa lausum innan hundagerðisins. Hundagerði hefur verið til umfjöllunar í einhver ár en ungur Hríseyingur, Stefán Pétur Bragason, safnaði undirskriftum þess til stuðnings og afhenti bæjarstjóra í mars 2023
Hverfisráð Hríseyjar vann málið svo áfram í samstarfi við starfsfólk umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og var gerðið tilbúið um miðjan ágúst 2024.