Páskasólin
Það styttist í Páska og því við hæfi að birta þessa sögu, þeim til viðvörunar sem hyggjast stunda þann innflutta ósið að fela páskaegg.
Þessar endalausu páskaeggjaleitir sem fólk hreykir sér af á samfélagsmiðlum, þær valda mér ógleði. Það er hræðilegur siður að fela páskaegg fyrir börnum. Hví, myndi einhver spyrja? Fyrir því er einföld ástæða, trauma úr barnæsku, möguleg páskaeggjaáfallastreituröskun. Það var bjartur og fagur páskadagsmorgun árið nítjánhundruðáttatíuogeitthvað.
Mamma var löngu búin að fjárfesta í páskaeggjum, eitt egg handa hvorri heimasætu, að sjálfsögðu nákvæmlega jafnstór (annað hefði þýtt hávaða og slagsmál) og bæði með fallegum gulum unga á toppnum. Við vorum búnar að stelast oft inn í búr og stara á þessi dásamlegu egg, þorðum ekki að koma við þau, en munnvatnsframleiðslan jókst við tilhugsunina um páskadagsmorguninn. Þvílík dásemdarveisla sem var framundan, súkkulaði, nammi og málsháttur, og fallegur gulur ungi til að geyma uppi á hillu.
Aldrei hefur nokkur vika verið eins lengi að líða og þessi dymbilvika. En loksins kom hinn langþráði páskadagur, sólríkur og fallegur OG LOKSINS mátti njóta súkkulaðieggjanna. Við systur ruddumst inn í búr með stýrurnar í augunum, EN.... hillan var tóm!! Engin páskaegg!! Hvað í ósköpunum??!!? MAMMA!!! Jújú, hún hafði falið eggin og við áttum að leita. Engar fínheita vísbendingar, eða gátur, bara leita. Og það sem var leitað. Og leitað. Áður en húsið yrði gert fokhelt þá ákvað mamma að gefa upp felustaðinn.
Það var herbergisglugginn minn. Sem snéri mót suðri. Og sólin vermdi svo sannarlega þann reit. Í stað fallegu páskaeggjanna voru í glugganum tvær ólögulegar súkkulaðiklessur og ungarnir sokknir á kaf í leðjuna svo aðeins nokkur gul hár stóðu upp úr. Nú sameinuðust systur í háværum harmagráti. Fát kom á foreldrana, engin leið til að bæta skaðann, önnur egg ekki til á heimilinu og í þá tíð allar búðir lokaðar á páskadag. Fátt gat sefað harmagrátinn, kandís frá ömmu sló aðeins á. Mamma hefur löngum verið úrræðagóð. Hún snaraði pokunum með bráðnu súkkulaðinu beint í frystikistuna.
Það reyndist mikill afleikur.
Seinna sama dag gerðum við systur heiðarlega tilraun til að éta súkkulaðiklessurnar, ekki kom til greina að láta dýrindin fara til spillis. Við týndum út úr okkur álpappírsnifsi og aðrar umbúðir og hræktum gulum hárum. Enga fundum við málshætti, höfum líklega étið þá ofan í okkur. Síðan þetta var hafa páskaegg í Höfða verið afhent eigendum sínum, en aldrei, aldrei falin.
Gleðilega páska kæru vinir, og gætið ykkar á páskasólinni.
Ekki fela það í suðurglugga