Í dag fer fram Fullveldishátíð: Dagur stúdenta í Háskólanum á Akureyri. Að því tilefni ritar Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður SHA hugvekju
Gleðilega hátíð. Dagurinn í dag, fullveldisdagur Íslendinga, er táknrænn fyrir mikilvægan hóp samfélagsins: Stúdenta. Ég hóf nám við Háskólann á Akureyri haustið 2019 og heillaðist strax af því einstaka samfélagi sem hér er. Ég vissi um leið að ég vildi taka virkan þátt í þessu samfélagi og leggja mitt af mörkum til að efla það og styrkja enn frekar. Ári seinna fór ég að sinna hagsmunagæslu stúdenta og setti mér markmið að vera ávallt til staðar fyrir stúdenta háskólans. Sérstaklega fyrir stúdenta sem þurfa á stuðningi að halda þegar kemur að því að leita réttar síns og standa á sínu. Það gaf því auga leið að þegar ég var kosin formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA) var það mitt leiðarljós – að vera til staðar fyrir ykkur, stúdentar. Ég vil því nota tækifærið hér og nú og þakka ykkur, stúdentum við Háskólann á Akureyri, fyrir að treysta mér og leita til mín þegar eitthvað liggur ykkur á hjarta – því saman getum tekist á við krefjandi verkefni og klifið himinhá fjöll.