27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Bjarmahlíð fékk jólakortastyrk KÍ
Bjarmahlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir einstaklinga frá 16 ára aldri sem hafa verið beittir ofbeldi. Hjá Bjarmahlíð er unnið með þolendum ofbeldis á þeirra forsendum. Öll þjónusta og ráðgjöf er undir sama þaki með það að markmiði að auðvelda þolendum að leita sér aðstoðar. Bjarmahlíð leggur áherslu á þverfaglega samvinnu mismunandi stofnanna og samtaka sem koma að vinnu á staðnum. Brotaþola er mætt í hlýlegu og öruggu umhverfi, á þeirra forsendum og einstaklingum að kostnaðarlausu. Markmiðið Bjarmahlíðar er að efla fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, ásamt því gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.
Bjarmahlíð er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, félagsmála- og dómsmálaráðuneytisins, Lögreglunnar á Norðurlandi Eystra, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Sjúkrahússins á Akureyri, Aflsins, Samtaka um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.