Vefurinn náði tali af Aðalsteini Árna Baldurssyni og innti hann eftir viðbrögðum við úrslitum í kosningum um nýjan kjarasamning við Starfsgreinasambandið. Félagar í Framsýn samþykktu samningin örugglega en u.þ.b 85% félagsmanna sem þátt tóku samþykktu hinn nýja samning
Aðalsteinn stóridómur er fallinn samningurinn er samþykktur með miklum meirihluta, þín viðbrögð?
Niðurstaðan er afar ánægjuleg, reyndar glæsileg. Við fylgdum eftir kröfugerð félagsmanna sem greinlega eru ánægðir með útkomuna þar sem um 86% félagsmanna þeirra aðildarfélaga innan Starfsgreinsambandsins sem stóðu að gerð kjarasamningsins samþykktu hann í rafrænni atkvæðagreiðslu.
Hvernig tilfinning er að sjá þessar viðtökur félagsmanna?
Að sjálfsögðu góðar enda eru félagsmenn að senda skýr skilaboð með þessari afstöðu varðandi samninginn. Það eru ekki allir sem átta sig á þeirri miklu vinnu sem er á bak við gerð kjarasamnings, þess vegna ekki síst skiptir verulega miklu máli að samningnum sé vel tekið af okkar félagsmönnum.
Fannst þér að áróður væri rekinn gegn þessum samningum fra stjórnendum Elfingar?
Já, áróður forsvarsmanna Eflingar gegn kjarasamningnum er þeim til mikillar skammar. Þau lögðu mikla vinnu í að tala samninginn niður og vöruðu við samþykkt hans meðal annars með ályktun. Höfum í huga að Eflingu bauðst að vera með okkur í kjarasamningsgerðinni sem félagið hafnaði. Það er, þau höfnuðu samstöðunni, svo það sé á hreinu. Hins vegar óska ég Eflingu velfarnaðar í kjaraviðræðum þeirra við Samtök atvinnulífsins á næstu dögum um leið og ég gleðst yfir því að félagsmenn Framsýnar fái launahækkun frá 1. nóvember. Það er í aðdraganda jóla þegar útgjöld heimilanna ná almennt hámarki á hverju ári.