Íslandsþari með ný áform um þaravinnslu á Húsavík
Íslandsþari óskar eftir að fá úthlutað lóðinni að Búðarfjöru 1 á Húsavík til uppbyggingar húsnæðis til úrvinnslu stórþara.
Íslandsþari ehf. hefur áform um að reisa tæplega 1.000 fermetra vinnsluhúsnæði með mögulegum framtíðar stækkunarmöguleikum til að hýsa vinnsluhluta ásamt aðstöðu til þróunar á starfseminni. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að unnið verði til að byrja með úr allt að 20.000 tonnum á ári af þarablöðum og stilkum.
Stefnt er að því að vinnslan verði byggð upp í áföngum á 45 ára tímabili og aukin milli ára þar til fullum afköstum er náð í samræmi við heimildir. Þá er reiknað með að framleiðsla verði rúmlega 6.000 tonn á ári af þurrkuðu/muldu hráefni úr blöðum og stilkum.
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstóri Norðurþings segir í aðsendri greina að um sé að ræða nýsköpunartækifæri í þurrkun á stórþara en búið sé að snúa til baka frá fyrri hugmyndum um vacum þurrkun og efnavinnslu. Starfsemin geri ráð fyrir tæplega 15 stöðugildum í byrjun sem muni aukast í samræmi við heimildir til söfnunar á stórþara.
Skipulags og framkvæmdaráð tók umsóknina fyrir á dögunum og lagði til við sveitarstjórn að lóðinni yrði úthlutað.
Ingibjörg Benediktsdóttir V lista greiddi atkvæði á móti og Rebekka Ásgeirsdóttir S lista skilaði auðu.
Í bókun sem Ingibjörg lagði fram kom fram að henni hugnist ekki starfsemi fyrirtækisins. „Undirritaðri hugnast ekki sú starfsemi sem fyrirhuguð er skv. framlögðum byggingaráformum og leggst því gegn úthlutun lóðarinnar til umsækjanda.
Í greinargerð Íslandsþara ehf. með umsókninni segir að frumvinnsla á stórþara eigi sér stað um borð í uppskerubát þar sem þarinn er aðgreindur og flokkaður fyrir vinnslu á landi. Allur stórþari sem berst til landvinnslunnar verði nýttur, enginn hluti stórþara fari til förgunar.