Safnar gripum sem framleiddir voru á Plastiðjunni og Iðjulundi

Sigurrós heldur hér á fléttuðum bakka sem líklega var hugsaður fyrir laufabrauð.   Myndir  akureyri.…
Sigurrós heldur hér á fléttuðum bakka sem líklega var hugsaður fyrir laufabrauð. Myndir akureyri.is/sarpur.is

Sigurrós Tryggvadóttir, iðjuþjálfi á Plastiðjunni Bjargi Iðjulundi  (PBI) er í viðtali á heimasíðu Akureryarbæjar og það segir hún frá söfnun sem hún stendur fyrir á gömlum framleiðsluvörum frá PBI.

,,Sigurrós Tryggvadóttir, iðjuþjálfi á Plastiðjunni Bjargi Iðjulundi (PBI), hefur í nokkur ár safnað gömlum munum sem hafa verið framleiddir á PBI. „Ég hafði lítinn áhuga á þessu þegar ég byrjaði að vinna hérna fyrir 16 árum, enda var ég þá ein af yngstu starfsmönnum PBI. Jakob Tryggvason, verkstjóri og vélamaður, hafði þá haldið utan um þetta, en þegar hann hætti eftir hátt í 50 ára starfsaldur vaknaði hjá mér áhugi á að halda söfnuninni áfram. Þetta er mjög merkileg saga,“ segir Sigurrós.

Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á Akureyri, var stofnað árið 1958. Tíu árum síðar stofnaði Sjálfsbjörg Plastiðjuna Bjarg. Iðjulundur var hins vegar stofnaður árið 1981, rekinn af Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Staðurinn var verndaður vinnustaður, fyrst og fremst fyrir fólk með þroskahömlun. Árið 1996 tók Akureyrarbær yfir rekstur beggja staða, sem voru svo sameinaðir árið 1999. Sagan spannar því marga áratugi og framleiðslan hefur verið fjölbreytt.

Sigurrós leggur áherslu á mikilvægi þess að varðveita munina svo sagan gleymist ekki. „Iðnaðarsagan hér á Akureyri er merkileg og þetta er hluti af henni. Hér hafa meðal annars verið framleiddar snjóþotur, vinnuvettlingar, sokkar, fiskibakkar, tuskur, allskyns kerti og auðvitað raflagnadósir, sem hafa nánast haldist óbreyttar í gegnum tíðina,“ segir Sigurrós sem hefur komið gripunum fyrir í glerskápum í húsnæði PBI við Furuvelli.

Eflaust vekur  þessi mynd  upp minningar hjá mörgum.

„Ég hef alltaf verið gömul sál og haft gaman af ættfræði og sögum og notið þess að vera í kringum eldra fólk. Mér finnst voða gaman að grúska í þessu gamla. Ef einhver á muni sem voru framleiddir á Plastiðjunni eða Iðjulundi eða ljósmyndir af vörunum, má endilega hafa samband við mig. Draumurinn er að fá snjóþotu sem framleidd var á PBI í safnið, en ég hef aðeins séð hana á ljósmynd. Í fyrra áskotnuðust mér tveir fiskibakkar og kapalspennur, sem var mjög skemmtilegt – það liggur við að það væri verið að færa mér gull.“

Hinar umræddu kapalspennur 

Nýjast