Hvað taka íslensku jólasveinarnir í bekkpressu?

Hurðaskellir undirbýr sig andlega fyrir þunga lyftu.
Hurðaskellir undirbýr sig andlega fyrir þunga lyftu.

Jólasveinarnir okkar þrettán eru mikilvægt menningartákn okkar Íslendinga. Þessir fyrrum vandræðapésar og hrekkjalómar, sem í seinni tíð hafa fangað hjörtu barna með skógjöfum fyrir jólin, eru ómissandi hluti af jólahátíðinni. Hér verður reynt að svara spurningunni sem hefur brunnið á mörgum í langan tíma, hvað hver og einn af þeim bræðrum tekur í bekkpressu.

Jólin koma

Stekkjastaur

Getur ekki stillt fótunum undir sig og nær því ekki mikilvægri spyrnu frá gólfinu til að þrýsta mjög þungri stöng upp. – 50 kg

Giljagaur

Hágæða íslenskt mjólkurprótein í rjómafroðunni sem hann gæðir sér á fer beint í vöðvana og því er þokkalegur styrkur í Giljagaur. – 95 kg

Stúfur

Að augljósum ástæðum þarf að sækja 15 kílóa stöng og setja í rekkann fyrir Stúf. Hann nær einni lyftu með herkjum. – 15 kg

Þvörusleikir

Ekki er mikið kjöt á beinum Þvörusleikis en hann er vanur að halda á sleipri þvöru og nær því góðu gripi á stönginni. – 60 kg

Pottaskefill

Lítið er vitað um hæfileika Pottaskefils í bekkpressu en þar sem hann er eins mikill meðaljólasveinn og þeir gerast, þá lyftir hann líklega um meðalþyngd. – 75 kg

Askasleikir

Vanur því að liggja kylliflatur undir rekkjum og líður vel láréttum undir stönginni. – 85 kg

Hurðaskellir

Hér er maður sem hefur styrkt Pectoralis Major og Serratus Anterior gríðarlega í gegnum tíðina með tíðum hurðaskellum. Það reynist hjálplegt undir stönginni. – 140 kg

Skyrjarmur

Þá er komið að senuþjófi keppninnar. Skyrjarmur er nautsterkur eftir allt skyrátið og brýtur iðulega hlemminn á skyrtunnunni með hnefanum einum eins og margir vita. Hann reynist algjört skrímsli undir stönginni. – 210 kg

Bjúgnakrækir

Er vanur að klifra upp í rjáfur og gæða sér á prótínríku bjúga. Það er uppskrift að miklum styrk ofan við mitti sem reynist vel í bekknum. – 100 kg

Gluggagægir

Ekki merkilegur vöðvasmiður hér á ferð og eiginlega bara vafasamur gæi. – 40 kg

Gáttaþefur

Mætir vel hlaðinn kolvetnum (e. carb-loaded) sökum laufabrauðsáts og rétt nær að troða nefinu undir stöngina. – 70 kg

Ketkrókur

Þaulvanur að hífa hangikjötslæri upp um strompa en er ekki eins öflugur í svokölluðum “push-day” æfingum. Prótínríkt mataræði skilar sér þó. – 100 kg

Kertasníkir

Mætir síðastur sem algjörlega óskrifað blað og gerir engar gloríur. – 55 kg

HB

 

Nýjast