Vanmetnar hetjur jólavertíðarinnar
Jólin eru besti tími ársins í hugum margra og oft á tíðum nýtir fólk jólin til afslöppunar og samveru með fjölskyldu. Það vill þó gleymast að fjöldinn allur af dugnaðarforkum úti um allan bæ vinnur myrkranna á milli í jólavertíðinni. Hér fá þeir hópar sem fara á fullt fyrir okkur hin um jólin, og gleymast oft í umræðunni, verðskuldað hrós. Athugið, listinn er ekki tæmandi.
Hárgreiðslufólk
Það er auðvitað ekki boðlegt að vera illa snyrtur um hárið um jólin. Alltof margir kveikja ekki á perunni fyrr en seint í desember og er því gríðarlegt álag á duglegu hárgreiðslufólki bæjarins sem vinnur oft afar langa daga í desember. Alvöru vertíð, alvöru hetjur!
Snjómokstursfólk
Ef ekki væri fyrir þetta harðduglega fólk sem klifrar upp í ísköld snjómoksturstækin og mokar göturnar á meðan við hin sofum í kringum jólin, væri töluvert meira puð að komast í jólaboðið hjá ömmu eða í áramótapartý hjá vinum. Takk fyrir það.
Verslunarfólk
Þá sérstaklega í verslunum sem eru opnar á rauðum dögum yfir jólahátíðina. Hver hefur ekki lent í því að vera sendur út í búð að kaupa rauðkál (sem gleymdist) klukkan hálf sex á aðfangadegi. Þessar vanmetnu hetjur taka vel á móti manni og selja þér rauðkálið með bros á vör.
Nemar
Mennta- og háskólanemar sitja sveittir yfir bókunum í jólaprófatíðinni með koffín í æðunum og ugg í brjósti yfir að standast ekki væntingar foreldra sinna. Svo fer þetta lið beint að vinna þegar jólafríið þeirra loks hefst. Sannar hetjur.
Dyraverðir
Þegar við hin staulumst út á lífið á öðrum degi jóla eða eftir miðnætti á gamlárskvöld eru traustir dyraverðir mættir á vakt, klárir í öll þau leiðindi og átök sem djammið fleygir í þá. Þetta hefur líklega aldrei átt jafn vel við og núna í vetur. Takk.
Tískujöfrar
Flestum þykir nauðsynlegt að vera sæmilegur til faranna yfir hátíðirnar. Þegar þarf að þrengja skyrtur, stytta buxur og festa nýjan flibbahnapp sem pabbi finnur ekki eða einfaldlega fá álit fagmanna, standa þessir sönnu herramenn vaktina óhaggaðir.