Götuhornið - Kona í Miðbænum skrifar

Það er óhætt að segja að kosningaspenna sé að finna á götuhornum bæjarins
Það er óhætt að segja að kosningaspenna sé að finna á götuhornum bæjarins

Á götuhorninu var að sjálfsögðu verið að ræða komandi kosningar enda í mörg horn að líta þegar kemur að því hvert skal greiða atkvæði á laugardaginn kemur.

Á horninu var fólk ekki sammála um hvað skyldi kjósa en roskin kona af Efri-Brekkunni var alveg viss um það að það væri mikilvægt að fá fólk til starfa sem væri til í að berjast fyrir sig:

,,Mér finnst mikilvægast að þingmaðurinn komi úr kjördæminu og vinni fyrir það. Þessi göng og vegabætur koma ekki að sjálfu sér” og vinkona hennar, sem stóð hjá og drap í löngum Capri bætti við:

,,Finnst alveg ótrúlegt að það sé einungis ein kona oddviti í kjördæminu og stundum tveir karlar í efstu tveimur sætunum. Það hefur klárlega áhrif á mitt val“.

Loks var þeim tíðrætt um hvaðan oddvitarnir væru og voru þær sammála um að það væri klárlega kostur ef viðkomandi væri úr kjördæminu en ekki Reykjavík eða Skagafirði.

Tveir gárungar úr Innbænum voru þó ekki jafn sammála um hvað væri þeim hugleiknast þegar kæmi að því hvað réði því hvar þeir greiddu atkvæðið:

,,Útlendingamálin eru mér hugleikin enda gríðarlegt fjáraustur farið í þau á undanförum árum. Sé samt ekki að þau séu einhver vandi hér í kjördæminu enda flestir sem hér búa harðduglegt vinnandi fólk sem gengur í störf sem við virðumst ekki vera að sækja í” sagði annar þeirra, enda vakað þær nokkrar vorvertíðirnar.

Félagi hans taldi þó eftirlaunin skipta gríðarlega miklu máli: ,,Nú þegar ég er komin á eftirlaun finnst mér hlutirnir horfa öðruvísi við en áður. Nú eru það allir þessir frádrættir varðandi lífeyris greiðslurnar og svo þessar krónur sem ég fæ vexti af sem koma svo til frádráttar frá ellilíeyrinum. Það er bara ekki sanngjarnt”

Á leið sinni af götuhorninu var tekið stopp í Kjarnaskógi, náttúruperlu okkar Akureyringa og þar voru ung hjón á gönguskíðum. Það fer þó engum sögum af hæfni þeirra en eiginmanninum, sem var ansi klambúlearaður eftir að hafa rennt sér, var heilbrigðiskerfið hugleikið:

,,Heilbrigðiskerfið er það sem skiptir okkur öllu mestu að endingu og ég vil flokk sem teflir fram raunhæfri og landsbyggðar miðaðri heilbrigðisstefnu” enda var ansi líklegt að hann þyrfti að kíkja á heilsugæsluna að skíðaferðinni lokni.

Eiginkona hans var ekki á sama máli og taldi náttúruverndina mikilvæga, enda stödd í Kjarnaskógi:

,,Landið okkar er víðfermt og fallegt. Ég vil hvorki vindmillur né skóglendi svo einhverjir auðkýfingar geti kolefnisjafnað ósóma sinn sem þeir stunda í útlöndum hér“ sagði hún, af töluverðri hörku!

Já það er margt í kýrhausnum og greinilegt að það er að mörgu að hyggja þegar fólk gengur að kjörklefunum á laugardaginn kemur!

Nýjast