Stundum eru svörtu sauðirnir bestu sauðirnir. Fólk kennir sjálft sig við svarta litinn af alls kyns ástæðum. Fimmtudagskvöldið 2. mars hefst tónleikaferð listahópsins (N)ICEGIRLS um Norð-austurland. Það eru Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, Helena Guðlaug Bjarnadóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir sem hafa samið splunkunýja tónleikadagskrá um sauðfjárrækt, væntumþykju, lífið á Íslandi nú og þá, upphafningu svarta litarsins og fleira. Tónlist og ljóð eru alfarið samin af þeim sjálfum, en þær syngja og leika á selló og orgel.
Listahópurinn ICEGIRLS, eða (N)ICEGIRLS kemur hér fram í fyrsta sinn. Hópurinn mun fremja tónlist, ljóðlist og myndlist og ekki endilega vera alltaf skipaður stelpum og ekki endilega alltaf vera úr klaka. En fást við lífið, á Íslandi og bara yfirleitt. Eins og gengur. (N)ICEGIRLS reyna að vera næs, en kannski mun það ekki alltaf takast. Það á eftir að koma í ljós.