Viðbótarframlag svo hægt verði bjóða upp á fleiri sýningar á Chicago
„Chicago er án efa stærsta sýning LA í mörg ár og hefur aðsókn og eftirspurn farið fram úr björtustu vonum. Sýningin hefur algjörlega slegið í gegn hjá áhorfendum,“ segir Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Til stóð að hætta sýningum í byrjun apríl næstkomandi, en Marta segir að í ljósi mikillar eftirspurnar hafi það hreinlega ekki verið hægt.
„Aðsóknin á Chicago hefur góð áhrif á allan bæinn því sýningin dregur að sér gesti frá öðrum sveitarfélögum og þeir nýta sér þá ýmsa þjónustu sem í boði er í bænum í leiðinni, svo sem veitingastaði, gistingu og fleira. Þetta kemur sér því vel fyrir marga og sýnileiki bæjarins eykst. Við erum afar stolt af þessari sýningu og þakklát fyrir stuðninginn,“ segir Marta.
Óskuðu eftir 4 milljónum, fengu 3
Menningarfélag Akureyrar, MAk óskaði eftir viðbótarframlagi frá Akureyrarbæ upp á fjórar milljónir króna til að hægt sé að framlengja sýningartímabil söngleiksins Chicago. Bæjarráð tók erindið fyrir og samþykkti að veita MAk þrjár milljónir króna.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista lagði á fundi bæjarráðs fram bókun þar sem hún fagnar því að bæjarráð veiti Menningarfélagi Akureyrar viðbótarframlag.
„Mér finnst þó miður að ekki hafi verið hægt að verða við ósk Menningarfélags Akureyrar um viðbótarframlag að upphæð kr. 4.000.000, en beiðnin var vel rökstudd og forsendur hennar skýrar.“