Enginn sótti um lóð við Gránufélagsgötu 22 - Ekki heimilt að rífa skemmu frá 1915 sem stendur á lóðinni
Áhugi fyrir því að byggja á lóðinni við Gránufélagsgötu 22 á Akureyri virðist ekki mikill. Engar umsóknir bárust þegar Akureyrarbær auglýsti lóðina lausa til þróunar. Á lóðinni stendur skemma frá árinu 1915 og heimilar Minjastofnun ekki niðurrif á henni. „Ég veit ekki hvað kemur í veg fyrir áhuga á lóðinni en tel að tilvera þessa húss hjálpi ekki til,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi. „Staðsetning hússins á miðri lóðinni er óheppileg.“ Skipulagsráð fól honum að ræða við Minjastofnun Íslands um framhald málsins.
Drög að deiliskipulagstillögu voru kynnt haustið 2021 fyrir lóðir númer 22 og 24 við Gránufélagsgötu. Þær gerðu ráð fyrir nýrri íbúðabyggð á því svæði og að skemma sem þar er fyrir yrði rifin. Á lóðinni númer 22 stóð áður hús, byggt árið 1923 og skúr frá 1921, en báðar byggingar hafa verið rifnar. Eftir stendur á lóðinni steinsteypt skemma byggð árið 1915 og nýtur hún friðunar. Skemman er eitt af elstu húsum á Oddeyri og elsta steinsteypta bakhúsið sem enn stendur uppi í hverfinu.
Dæmi um hverfandi byggðamynstur smáhýsa
Skemman ber vitni um hverfandi byggðamynstur smáhýsa á fram og baklóðum sem stóðu ýmist stök eða voru byggð saman í áföngum. Skemman er eina dæmið sem eftir stendur á Oddeyri og jafnvel á Akureyri um steinsteypta skemmu eða skúr á lóð frá því fyrir árið 1920. Minjastofnun hefur þrisvar áður sent frá sér álit vegna skemmunnar og ávallt á þá lund að ekki fáist heimild til að rífa hana.
Möguleiki ekki hindrun
Hins vegar er opnað á það áliti Minjastofnunar að breytingar verði gerði á húsinu að einhverju leyti þannig að hún falli betur að væntanlegri byggð á svæðinu. Hvetur stofnunin Akureyrarbæ til að líta á skemmuna sem möguleika en ekki hindrun. Eins hvetur Minjastofnun bæinn til að kynna sér lög um verndarsvæði í byggð. Loks hvetur stofnunin til þess að skipulag nýbygginga á lóðinni taki betra mið af ríkjandi byggðamynstri á Oddeyri sem einkennast af stakstæðum húsum í hógværum kvarða eins og það er orðaði í áliti Minjastofnunar