Sneru vörn í sókn í kjölfar faraldurs

Alls tóku 17 krakkar þátt í rappsmiðju á Bókasafninu á Húsavík undir handleiðslu Reykjavíkurdætra. M…
Alls tóku 17 krakkar þátt í rappsmiðju á Bókasafninu á Húsavík undir handleiðslu Reykjavíkurdætra. Mynd/Egill Bjarnason.
Á Íslandi fyrirfinnst varla það byggða ból sem ekki skartar sinni eigin kirkju, sundlaug og bókasafni. Þessi þrenning, heilög eða ekki hefur verið samofin íslenskri menningu svo lengi sem okkar kynslóðir muna og líklega lengur.
Hið síðastnefnda, er umfjöllunarefni þessarar greinar en óhætt er að segja að bókasöfn hafi átt á brattan að sækja undanfarin ár, líkt og línuleg dagskrá í sjónvarpi og útvarpi. Enda er samkeppni á sviði afþreyingar og upplýsingaöflunar sífellt að verða harðari á tímum vefmiðla og efnisveitna.
Ef bókasöfn ætla sér að eiga tilverurétt í hinum hraða heimi lyndistjákna og gervigreindar þá þurfa þau að grafa djúpt í kistu sköpunarkraftsins og leita nýrra leiða til að laða að sér gesti.

 Vörn í sókn

Bókasafn

Nákvæmlega það hefur Bókasafnið á Húsavík gert að undanförnu. Dregnar hafa verið fram frumlegar lausnir sem kannski byggja að mörgu leiti á gömlum íslenskum grunni. Því hvað er eiginlega bókasafn? Er það staður til að geyma gömlu góðu bókasafnslyktina sem er að finna á öllum bókasöfnum innan um hillumetra af gömlum og nýjum skræðum? Eða er bókasafnið eitthvað meira? Eitthvað töfrandi?
Bókasafnið á Húsavík hefur í það minnsta snúið vörn í sókn með það að leiðarljósi að bókasafnið sé fyrst og fremst allmannarými, samverustaður þar sem viðburðir af hinu fjölbreyttasta tagi geta átt sér stað. Sóknarfærin eru svo sannarlega til staðar nú á tímum gegndarlauss túrisma þar sem nær allir gömlu góðu samkomusalir bæjarins hafa verið lagðir undir veitingarekstur, gistiþjónustu og annað slíkt.

 Girtu sig í brók

Vikublaðið ræddi við Bryndísi Sigurðardóttir deildarstjóra bókasafna Norðurþings en hún segir að í september 2022 hafi Bókasafnið á Húsavík farið af stað með þá nýjung að birta mánaðardagskrá með viðburðum. „Við ákváðum að girða okkur í brók og rífa okkur uppúr þessu covidástandi sem var búið að vera og byrjuðum með sumarlesturinn síðasta sumar. Svo byrjuðum í kjölfarið að vera með þessa Líflegu laugardaga,“ segir Bryndís en viðburðirnir hafa verið fjölbreyttir eins og þeir eru margir og bæði sniðnir að fullorðnum og börnum.
„Núna höfum við verið að leggja áherslu á viðburðaröðina sem við nefnum „Líflega laugardaga”, segir hún og bætir við að Húsvíkingar hafi tekið mjög vel í þessa nýjung. „Við heyrum ekki annað en að almennt ríki mikil ánægja með það að bókasafnið bjóði upp á ókeypis viðburði alla laugardaga.“

Vettvangur samsköpunar

Bókasafnið á Húsavík er þátttakandi í verkefninu Vettvangur samsköpunar (e. Community Co-Creation) sem styrkt er af Bókasafnasjóði og Byggðarannsóknasjóði. Verkefnið er samstarfsverkefni bókasafna um allt land og felur m.a. í sér að rannsaka mismunandi form samfélagsrýma.
Vettvangur samsköpunar styrkir dagskrá marsmánaðar á Bókasafninu á Húsavík.
Bókasafnið hefur staðið fyrir skiptimörkuðum af ýmsu tagi, upplestri fyrir börn, tungumálastundum og fræðslum. Þar er fólk hvatt til að mæta með eigin hugmyndir eða hluti til að deila, einnig er hægt að deila kunnáttu eða einfaldlega til að vera í kringum fólk.
Viðburðaröðin er tilraun bókasafnsins til að komast að því hvað dregur fólk að, hvers konar viðburðir væru vinsælir meðal bæjarbúa og mynd fá fleiri til að nota rýmið til að njóta samveru og tengjast öðrum.

Fjölbreyttir viðburðir

Þann 11. Mars var Christin Irma Schröder með fyrirlestur um bleyjulaust uppeldi og leiðir til að bregðast við náttúrulegum hreinlætisþörfum barns. Í tilefni af viðburðinum var sett upp í einu horni bókasafnsins tjald fyrir börn að skríða inn í og umhverfið gert hlýlegt með teppum og leikföngum sem viðbót við hið hefðbundna krakkahorn sem er alltaf til staðar. Á viðburðinum voru tveir gestir sem eru innflytjendur frá Þýskalandi og sátu þau með Christin og fræddust um uppeldisaðferðir í notalegu umhverfi á meðan úti snjóaði á þessum kalda laugardagsmorgni.

Rappað á bókasafninu

Bókasafn 2023

Þá voru Reykjavíkurdætur með rappsmiðju fyrir börn þann 12. mars sem reyndar bar upp á sunnudag.
„Þegar Reykjavíkurdætur höfðu samband við okkur gátum við ekki slegið hendinni á móti því að fá þær hingað, þó svo að það væri á sunnudegi,“ útskýrir Bryndís en öllum krökkum í 4. -8. bekk var boðið að taka þátt og var námskeiðið ókeypis. Þátttaka var góð en 17 mættu á námskeiðið. „Krakkarnir unnu bæði öll saman og svo í litlum hópum og námskeiðið endaði á því að þau fluttu sitt eigið  rapp sem þau höfðu samið á námskeiðinu. Það var mjög skemmtilegt og allir fóru ánægðir út í daginn að námskeiði loknu,“ segir Bryndís.
Í Rappsmiðjunum fengu krakkarnir innsýn inn í sögu og eðli rapp tónlistar og lærðu að semja og flytja sinn eigin texta. Lögð var áhersla á hugtökin; inntak, flæði og flutningur. Reykjavíkurdæturnar Steinunn Jóns og Ragga Holm leiddu námskeiðið en þær hafa báðar mikla reynslu af því að vinna með börnum og unglingum.
Ragga Holm er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og starfaði bæði sem aðstoðar forstöðumaður á frístundaheimili og félagsmiðstöð og hefur haldið margskonar námskeið fyrir grunnskólabörn, unglingadeildir og menntaskóla. Hún starfar nú sem útvarpskona á Kissfm 104,5; plötusnúður og rappari í Reykjavíkurdætrum síðan 2017. Árið 2018 gaf Ragga einnig út sólóplötuna Bipolar sem fékk góðar undirtektir.
Steinunn hefur síðan 2011 starfarð sem tónlistarkona og danskennari. Hún er einn af forsprökkum hljómsveitarinnar Reykjavíkurdætur og Amabadama. Fyrir texta sína á plötunni Heyrðu mig nú var hún tilnefnd textahöfundur ársins á íslensku tónslistarverðlaununum 2014/2015. Hún hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum og því að kenna bæði framkomu, dans og textasmíð.
Í lok smiðjunnar fluttu börnin sín eigin rapplög eða ein Reykjavíkurdætra flutti textana sem börnin höfðu samið á vinnustofunni. „Þátttakendur voru afar ánægðir og vildu fá rapparana sem allra fyrst aftur á bókasafnið,“ sagði Bryndís að lokum.

Nýjast