Jólamatur fátæka mannsins

Heiðrún Jónsdóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag
Heiðrún Jónsdóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag

Einn af mínum allra uppáhalds fuglum er rjúpan.  Rjúpan nam hér land við lok ísaldar fyrir um 10.000 árum og kom upprunalega frá Grænlandi.

Hún á sér lengri forsögu hér en við. Mér finnst hún ekki bara falleg, hún er brögðótt, á 3 alklæðnaði og  þegar hún ver unga sína, þá sýnir hún vanmetna vitsmuni.

Ropi og listflug

Rjúpnakarrar helga sér óðul og heilla kvenfuglinn með ropi og listflugi. Hún verpir um 12 eggjum, ungar koma eftir  3 vikur og yfirgefa þeir hreiður strax og fylgja móður sinni eftir í 6-8 vikur. Rjúpur með ófleyga unga fljúga í veg fyrir ógnanir, s.s.  menn og hunda til að draga þá í burt frá ungahópnum. Þær kurra þegar þær bresta upp og hvetja þannig ungana til að fela sig og kúra sig niður.

Felubúningur

Rjúpan klæðir sig upp í felubúning þrisvar á ári. Á veturna er hún nánast alhvít, brún á sumrin en gráleit á haustin. Rjúpan er staðfugl hér en ferðast oft landshorna á milli. Hún verpir víða um land en áttar sig auðvitað á því að best er að búa á norðaustanverðu landinu. Hún dvelst í lyngmóum, kjarrlendi, skógum og á grónu hrauni. Rjúpur geta halda sig á fjöllum en flogið neðar á heiðum þegar rökkvar.

Matur fátæka mannsins

Rjúpan er einn einkennisfugla íslenskrar náttúru, samofin sögu okkar. Fyrr á árum var rjúpan jólamatur fátæka mannsins, þeirra sem voru of fátækir til að fella sauðfé, og hefur þannig haldið lífi í forfeðrunum.

Aðstöðumunur

Rjúpnastofninn er afar sveiflóttur. Frá því að íslenska þjóðin svalt og nýtti hvað sem vera mátti til að leggja sér til munns var rjúpan matur fátæka mannsins. Áður fóru menn í sauðskinnsskóm, með hund sér til aðstoðar og náðu sér í rjúpur. Í dag fara menn vígbúnir upp á fjöll, með fullkomin drápstól, farartæki og sjónauka.

Meðalhóf og hófsemd.

Það er gömul hefð að menn fari til fjalla og veiði rjúpur fyrir fjölskylduna fyrir jólin. En eins  og í flestu skiptir máli að gæta hófs.

Við sveltum ekki lengur. Virðum rjúpuna sem hefur verið hér í 10.000 ár, samofin sögu okkar. Það er ekki magnið sem skiptir máli, heldur njóta, bera virðingu fyrir náttúrunni og vitmunum rjúpunnar.

 

Nýjast