Um 7.700 bílar í flotanum á komandi sumri og hafa aldrei verið fleiri

Höldur hlaut nýverið viðurkenningu frá Europcar Group sem fyrirtækið er umboðsaðili fyrir, en viðurk…
Höldur hlaut nýverið viðurkenningu frá Europcar Group sem fyrirtækið er umboðsaðili fyrir, en viðurkenningin er veitt fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróun. Mynd Höldur

„Við eigum ekki von á öðru en að árið verði mjög gott, bókunarstaðan hefur aldrei verið betri miðað við árstíma. Árið í fyrra var það besta sem við höfum séð í okkar rekstri og við munum sennilega aldrei ná slíku ári aftur,“ segir segir Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds- Bílaleigu Akureyrar.  „Þetta ár lítur engu að síður vel út, en kostnaður hefur vaxið mjög mikið þannig að við náum ekki sama árangri í ár.  Gangi áætlanir eftir og komi ekkert óvænt uppá þá verður árið mjög gott.“ Fleiri bílar en áður verða í flotanum sem þjónustar ferðalanga á ferðum þeirra um Ísland á komandi sumri, og verður heildarflotinn allt að 7.700 bílar.

Steingrímur segir að gríðarleg eftirspurn hafi verið eftir þjónustu félagsins á liðnu ári. „Það má segja að hafi komið okkur að sumu leyti á óvart, við áttum ekki von á því að yrði alveg svona mikið að gera. Við reiknuðum með góðu ári, en niðurstaðan fór fram úr okkar björtustu vonum. Við vorum á tímabili bara að troða marvaðann og bjarga okkur frá degi til dags. Sem betur fer tókst það ágætlega enda frábært fólk hjá okkur sem er öllu vant,“ segir hann.

Alls voru í boði um 7.500 bílar og höfðu þá ekki verið fleiri í flotanum, en dugði vart til á stærstu dögunum. Steingrímur gerir ráð fyrir að fleiri bílar verði í flotanum í sumar, allt að 7.700. „Í fyrra voru talsverðar tafir á afhendingu nýrra bíla en mér sýnist að svo verði ekki í sama mæli núna í ár, það lítur betur út í flestum bílaflokkum. Einna helst eru tafir á afhendingu húsbíla og smærri fólksbíla. Bílaframleiðendur voru í talsverðum vandræðum í fyrra en svo virðist sem þeir sér að mestu komnir fyrir vind og afhendingar fyrir komandi sumar muni að mestu standast.“

Góð bókunarstaða

Steingrímur segir bókunarstöðu hjá fyrirtækinu aldrei hafa verið eins góða og nú en það sem helst gæti sett strik í reikninginn er ef upp kemur skortur á gistirými fyrir ferðafólkið. „Það er víða farið að þrengjast verulega, en vonandi sleppur þetta til,“ segir hann. Nokkrir staðir skera sig úr, svæðið frá Klaustri að Höfn í Hornafirði, Egilsstaðir og svæði þar um kring og eins svæðið frá Mývatnssveit að Akureyri. Steingrímur segir áhuga fyrir Íslandi enn verulega mikinn og gerir ekki ráð fyrir að dragi úr á næstu árum, en bendir á að innviðir verði að vera í lagi, góð þjónusta, nægt gistirými meðal annars þannig að gott orðspor verði ekki fyrir skaða.

Yfir 500 rafbílar og fleiri á leiðinni

Höldur Bílaleiga Akureyrar tók á dögunum við fimmhundruðasta rafbílnum í bílaflota sinn, en hreinum rafbílum hefur fjölgað ört liðin ár sem er í takt við áherslur fyrirtækisins um að vera ávallt í fararbroddi í umhverfismálum og leiðandi í orkuskiptum. Steingrímur segir að á bilinu 3 til 400 nýir rafbílar hafi verið pantaðir og komi inn í reksturinn á næstu misserum.

Félagið hefur á liðnum árum unnið að uppbyggingu hleðsluinnviða með stækkun heimtauga og uppsetningu á 60 hleðslustöðvum á 6 starfsstöðvum víða um land. Höldur Bílaleiga Akureyrar hlaut nýverið viðurkenningu frá Europcar Group sem fyrirtækið er umboðsaðili fyrir, en þau voru veitt fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróun. Var fyrirtækið verðlaunað fyrir framúrskarandi vinnu við uppbyggingu innviða er snúa að orkuskiptum sem og fjölda rafbíla í bílaflota sínum. Europcar á Íslandi er nú með flesta rafbíla af öllum aðildarlöndum þess fyrirtækis.

Steingrímur segir frábært að ná þeim árangri að vera komin yfir 500 rafbíla í flotanum, en með árunum hefur úrvalið aukist til muna og eru í boði rafbílar frá öllum helstu framleiðendum heims. Þá eru einnig í boði fjöldi vistvænna bíla, en raf- og vistvænir bílar eru 26% af heildarflota fyrirtækisins.  Steingrímur segir viðurkenningu Europcar miklar viðurkenningu á góðu starfi fyrirtækisins þegar kemur að orkuskiptum bílaflotans og uppbyggingu innviða.

Nýjast