Á síðasta ári var tölvubúnaður í VMA endurnýjaður, fartölvur leystu af hólmi stofutölvur og skjái. Um eitthundrað tölvur, sem var skipt út í VMA, munu síðar á þessu ári fá nýtt hlutverk í skólanum Ecole ABC de Bobo í Bobo-Dioulasso, næststærstu borg Búrkína Fasó í vesturhluta Afríku, þar sem búa um 540 þúsund manns.
Yfirgripsmikið starf ABC barnahjálpar í Bobo-Dioulasso
Á annan áratug hefur ABC barnahjálp á Íslandi lagt sitt af mörkum við skólastarfið í þessum leik-, grunn- og framhaldsskóla í Bobo-Dioulasso og eru forstöðumenn hans íslenskir, Hinrik Þorsteinsson og Ragnhildur Jónsdóttir. Þau stýra skólanum og uppbyggingarstarfinu þar í samstarfi við heimafólk. ABC barnahjálp á Íslandi og í Bretlandi er fjárhagslegur bakhjarl þessa skólastarfs og er það eitt af þeim verkefnum sem ABC barnahjálp á Íslandi styður. Markmiðið með starfi ABC barnahjálpar er að gefa fátækum börnum tækifæri til þess að mennta sig og efla þau og styrkja í lífinu.