20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Sérútbúinn lögreglubíll til landamæraeftirlits
Embætti Lögreglunnar á Norðurlandi eystra hefur fengið til eignar sérútbúinn lögreglubíl til afnota við landamæraeftirlit. Segja má að þar sé á ferðinni fullbúin landamærastöð á hjólum. Landamæra- og áritunarsjóður Evrópusambandsins greiddi 75% kostnaðar og Dómsmálaráðuneytið 25% og skiptu einnig með sér kostnaði við einn starfsmann í þrjá mánuði síðastliðið sumar.
Landamæravarsla er eitt af þeim störfum sem lögregla sinnar og hefur farið vaxandi á liðnum árum. Akureyrarflugvöllur er skilgreindur sem Schengen flugvöllur og þá eru innan umdæmis lögreglunnar fimm Schengen hafnir, á Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn og Siglufirði. Auk meiri umsvifa í millilandaflugi hefur umferð skemmtiferðaskipa verið mikil síðastliðin ár, einkum á Akureyri. Um 80 skip komu á þessu ár í 256 heimsóknum með um 400 þúsund manns innanborðs.
Gríðarleg vinna
Það er bæði mannaflafrek og kostnaðarsöm vinna að takast á við verkefni tengd landamæraeftirliti segir í tilkynningu lögreglu. Sem dæmi hafa sum skipafélög þann háttinn á að farþegaskipti á skipum fara fram hér á landi. Stærstu skipin geta verið með yfir 3000 farþega og það þarf þá að láta alla sem fara af skipinu sæta vegabréfaskoðun. „Þetta er gríðarleg vinna og til að komast yfir verkefnið hefur verið gripið á það ráð að sinna vegabréfaeftirlitinu að hluta til meðan skipin eru á siglingu til seinustu hafnar. Lögreglumenn sem sinna landamæraeftirliti fara þá um borð í skipin, gjarnan á Akureyri, og sigla með þeim til Reykjavíkur og sinna vegabréfaeftirliti í leiðinni.“