20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Nærsamfélagið tekur höndum saman
Skemmtikraftarnir góðkunnu Jónas Þór Viðarsson og Arnþór Þórsteinsson hafa fengið til liðs við sig fjölda góðra listamanna og halda jólatónleika í Skúlagarði 18. desember nk. Allur ágóði af tónleikunum rennur til Sigrúnar Bjargar Aðalgeirsdóttur og fjölskyldu hennar en í byrjun október lenti hún í alvarlegu bílslysi í Kelduhverfi þar sem stór vöruflutningabíll og fólksbíll Sigrúnar rákust saman. Sigrún Björg slasaðist alvarlega og sex ára sonur hennar einnig nokkuð. Þau eru sem betur fer á góðum batavegi og sonur hennar byrjaður í skóla en Sigrúnar bíður löng endurhæfing með tilheyrandi kostnaði.
Einvalalið hljóðfæraleikara
„Við höfum því ákveðið að bjóða til fögnuðar ásamt einvalaliði tónlistarmanna í Skúlagarði til styrktar fjölskyldunni,“ segir Jónas Þór í samtali við Vikublaðið. Hljómsveitina skipa eftirfarandi:
Jónas Þór og Arnþór
Þórgnýr Valþórsson
Knútur Emil Jónasson
Borgar frá Brúum
Pétur Ingólfsson
Flex hljóðmaður.
„Við höfum verið í svona styrktartónleikum áður þó við gerðum þar reyndar ekki í fyrra en við ákváðum að gera þetta aftur núna enda tilefnið ærið,“ segir Jónas Þór og bætir við að það sé mikilvægt að nærsamfélagið taki utan um fólkið sitt þegar svona atburðir eigi sér stað.
„Það er margt um að vera hjá fjölskyldunni núna, endurhæfing og svoleiðis þannig að við ákváðum að smella í eina tónleika og fengum nokkra snillinga til liðs við okkur, það voru allir boðnir og búnir til að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Jónas Þór og bætir við að þeim hafi borist liðsauki frá Kvenfélaginu í sveitinni.
Kvenfélagið tekur þátt
„Ég var eitthvað að tala um þetta í einum kaffitíma í sveitinni heima um að hafa svona tónleika og safna aðeins fyrir fjölskylduna og þá kom á daginn að kvenfélagið í sveitinni vildi fá að leggja þessu lið líka. Þær ætla að vera með bakkelsi og svona puttamat í hléi. Þannig að það má segja að fólkið í sveitinni hafi tekið höndum saman enda snertir þetta alla þegar hræðilegir atburðir verða í nærsamfélaginu,“ segir Jónas Þór.
Jónas Þór segir að viðbrögð við tónleikunum séu búin að vera mjög góð og það sé reyndar uppselt nú þegar og lofar gríðarlegri tónlistarveislu.
Miðapantanir fara fram í gegnum þá Jónas og Arnþór og eru miðarnir greiddir inn á sérstakan styrktarreikning. Þá segir Jónas að nokkuð sé um að fólk sé að leggja inn frjáls framlög á reikninginn sem sé hið besta mál.
Mikil aðsókn
„Það er orðið uppselt hjá okkur en við erum með biðlista og erum að skoða hvort hægt sé að bæta við sætum. Við erum með þetta þannig að fólk greiðir fyrir tónleikana fyrirfram og svona viku fyrir tónleikana fer ég svona að hóa í fólk sem er ekki búið að greiða til að athuga hvort að það ætli sér að nýta miðann sinn eða ekki og ef einhver boðar forföll þá kannski kemst einhver að af biðlistanum. Við viljum nefnilega alls ekki hafa nein auð sæti,“ segir Jónas Þór og lofar frábærri stemningu.
Fjölbreytt dagskrá
„Þetta er alveg frá hátíðlegustu nótum en einnig létt og leikandi. Allir ættu að komast í jólaskap enda er þvílíkt einvalalið með okkur í þessu að þetta getur ekki orðið annað en frábært. Þetta verður vegleg tónleikasýning,“ segir Jónas og vonast til þess að veðurguðirnir verði með þeim í liði.
Treystir á gott veður
„Það eina sem getur sett strik í reikninginn er veðrið en ég er bjartsýnn á að svo verði ekki. Við Arnþór erum vanir því að vera með tónleikahald í desember og það hefur aldrei verið vandamál. Þetta er líka það snemma að það verður nýbúið að moka, þannig að ef það verður einhver snjór þá ættu allir að komast á tónleikana og heim til sín aftur.“
Þá segir Jónas að tónlistin sem spiluð verður sé bland af bæði hátíðlegum og leikandi léttum jólalögum. „Það er því eitthvað fyrir öll eyru að njóta. Tökum þó sérstaklega fram að Snjókorn falla verður ekki spilað enda ætlum við að hafa færðina skaplega,“ segir Jónas Þór að lokum.
Húsið opnar 17:30 og tónleikarnir hefjast 18:00.
Eins og áður segir rennur allur ágóði af tónleikunum til Sigrúnar og fjölskyldu og enn er hægt að leggja inn frjáls framlög á eftirfarandi reikning:
0567-26-10690
kt: 700921-0690