Stéttarfélögin hafa undanfarið átt í viðræðum við Flugfélagið Erni um áframhaldandi samstarf um sérkjör á flugmiðum fyrir félagsmenn milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Í gær var gengið frá samningi milli aðila sem gildir út árið 2023 og tryggir félagsmönnum sama verð á flugmiðum/kóðum og verið hefur síðustu mánuði eða kr. 15.000,- per flugferð.
Samkomulagið byggir á því að Framsýn greiðir fyrirfram ákveðinn fjölda flugmiða sem ætlað er að endast út árið en tæplega 200 miðar/kóðar eru að meðaltali seldir til félagsmanna á mánuði. Að sjálfsögðu ber að fagna þessum samningi enda um mikla kjarabót að ræða fyrir félagsmenn.