27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Samið við Trésmiðju Ásgríms Magnússonar um lóð við Norðurgötu 3 til 7
Samþykkt hefur verið að ganga til samninga við Trésmiðju Ásgríms Magnússonar ehf um uppbyggingu á lóðinni númer 3 til 7 við Norðurgötu. Þrjár tillögur bárust, allar frá Trésmiðju Ásgríms sem er lóðarhafi á umræddri lóð.
Allar hugmyndirnar byggjast á því að viðhalda og bæta í þéttleika byggðarinnar og að hæð nýrra bygginga verði sambærileg núverandi byggð, en ein þeirra hugmynda sem varpað var fram gengur lengst hvað hæð varðar. Reiknað er með að umsóknarferlið taki allt að 6 mánuði og byrjað verði á framkvæmdum strax að því loknu. Reiknað er með að hús ásamt lóð verði fullbúið 18 mánuðum seinna.
Mikil fjölbreytni í húsagerð á Oddeyri
Fram kemur í greinargerð frá umsækjanda að hönnuðir leggi fram hugmyndir um að á svæðinu eigi að byggja sem flestar íbúðir því öllum sé ljóst að Oddeyri þurfi á íbúðarfjölgun að halda. „Við teljum að hugmyndir okkar séu í takt við rammaskipulag Oddeyrar og húsakönnun sem gerð var fyrir Oddeyrina,“ segir í greinargerðinni.
Bent er á að mörg há hús hafi verið byggð á Oddeyri, Snorrahús sem stóð á lóðinni sem nú er Strandgata 1 sé eitt þeirra. Víða megi finna hús á tveimur til þremur hæðum og allt upp í fjórar.
„Fjölbreytnin í húsagerðum er óvíða eins mikil og á Oddeyrinni og því flókið að hanna hús sem eiga að falla inn í íbúðabyggðina. Við teljum mun áhugaverðara að hanna nútíma byggingu sem hefur einnig blöndu af eldra umhverfi húsanna í kring,“ segir í greinargerð umsækjenda.