„Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir okkur,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir ein þeirra kvenna sem standa að Norðurhjálp, nytjamarkaði sem hefur verið til húsa við Dalsbraut á Akureyri. Ljóst er að rýma þarf markaðinn fyrir lok febrúarmánaðar næstkomandi en leigusamningi Norðurhjálpar hefur verið sagt upp. Öll innkoma af markaðnum, ef frá er talin leiga fyrir húsnæði, hefur farið í að rétta þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu aðstoð. Á liðnu ári veitti Norðurhjálp alls 26 milljónir króna til fólks á Norðurlandi.