Vilja draga úr slysahættu á háannatíma

Sveitarstjórn Norðurþings staðfesti á dögunum samþykktir vegna Bílastæðasjóðs Norðurþings en til stendur að hefja gjaldtöku á bílastæðum á miðhafnarsvæðinu á Húsavík í vor. Bílastæðin sem um ræðir verða gjaldskyld frá 08:00-20:00 alla daga vikunnar frá 1. maí n.k. til 30. september. Ráðið telur að með gjaldtöku á bílastæðum sé hægt að stýra umferð um hafnasvæðið á Húsavík á valin gjaldfrjáls bílastæði annarsstaðar í bænum yfir mesta ferðamannatímann.

Eiður P

Eitt gjaldsvæði er við hafnasvæði og miðbæ Húsavíkur, P1. Gjald fyrir fyrstu 60 mínúturnar er 220 kr. Eftir það hækkar gjaldið í 500 kr. á hverja klst. Einungis er rukkað fyrir rauntíma sem bíl er lagt í stæði. Gjaldskyldutími er frá kl. 08:00 – 20:00 alla daga vikunnar frá 1. maí til 30. september ár hvert. Október-apríl eru gjaldfrjálsir mánuðir.

Búið er að gera samning við PARKA um innheimtu á gjaldi fyrir gjaldskyld stæði skv. gjaldskrá með rafrænni greiðslulausn. Hægt verður að greiða fyrir viðveru í gjaldskyldum stæðum í snjallforriti PARKA eða með greiðslu á vefsíðunni www.parka.is

Beina umferð ofar í bæinn

Eiður Pétursson, formaður stjórnar Hafnarsjóðs Norðurþings segir að verkefnið sé á tilraunastigi og muni eflaust taka einhverjum breytingum með tímanum. Hann segir jafnframt að heimafólk þurfi ekki að óttast það geta ekki lagt bílum sínum án þess að greiða fyrir það. Nóg verði af gjaldfrjálsum svæðum.

„Fyrst og fremst er er verið að horfa á hafnarsvæðið á Húsavík og nokkur stæði upp af því sem gjaldskyld stæði. Það hafa ýmsar tilraunir verið gerðar á síðustu árum með umferðarstýringu á miðhafnarsvæðinu á þessum háanna tímum. Það hafa verið auglýst gjaldfrjáls svæði bæði á suðurfyllingu og ofar í bænum. Þetta hefur gefist ágætlega en þrátt fyrir það þarf meiri stýringu á hafnasvæðinu,“ segir Eiður og bendir á að á hverju ári komi um 110 þúsund manns til Húsavíkur til að fara í hvalaskoðun og flestir á bílaleigubílum.

Vilja minnka slysahættu

„Einhversstaðar verða þessir bílar að standa á meðan fólkið fer í hvalaskoðun. Þetta verkefni með gjaldskyld stæði er fyrst og fremst á tilraunastigi. Tilgangurinn er sá að freista ferðamenn til að nota bílastæði ofar í bænum á þessum háannatíma. Með þessu erum við að reyna minnka álag á hafnasvæðinu og draga úr slysahættu enda er ýmis önnur starfsemi í gangi á hafnarsvæðinu,“ útskýrir Eiður og bætir við að heimafólk þurfi ekki að óttast sektarglaða bílastæðaverði.

„Þetta er ekki gert til að vera sekta fólk sem ferðast um bæinn við hefðbundnar athafnir eins og að ganga til kirkju og annað. Það eru gjaldfrjáls svæði við Húsavíkurkirkju eins og aðrar stofnanir bæjarins. Við prófum að sjósetja þetta verkefni núna í vor og svo sjáum við til hvernig það þróast. Eflaust mun það taka einhverjum breytingum þegar fram líða stundir,“ segir Eiður að lokum.

Sett verða upp skilti við innkeyrslu í bæinn til upplýsinga fyrir ferðafólk og einnig við gjaldskyld svæði.

Nýjast