Almenningssamgangnadeild Vegagerðar skoða nýja útfærslu á upphringigjaldi

Mikil óánægja varð í Hrísey með fyrirhugaða hækkun á ferðum með Sævari
Mikil óánægja varð í Hrísey með fyrirhugaða hækkun á ferðum með Sævari

„Við erum með til skoðunar nýja úrfærslu á gjaldi fyrir upphringiferðir,“ segir Hilmar Stefánsson forstöðumaður hjá Almenningssamgangnadeild Vegagerðarinnar. Mikil óánægja varð í Hrísey með fyrirhugaða hækkun á því gjaldi nýverið en hún var umtalsverð.

Hilmar segir að fyrri hugmynd hafi gengið út á að allir farþegar greiddu 3.700 krónur fyrir upphringiferð en nú sé hugmyndin að hópurinn eða fjölskyldan sem ferðast saman í slíkri ferð greiði eitt gjald upp á 3.700 og svo borgi hver og einn farþegi til viðbótar fargjald samkvæmt gjaldskrá.

Ekki hækkað gjöld frá 2021

Hilmar segir að fargjöld í Hríseyjarferjuna hafi síðast hækkað árið 2021 og þær hækkanir sem fyrirhugað er að taki gildi 1. maí næstkomandi sú hóflegar og undir verðlagsþróun í landinu. Þá bendir hann á að íbúar með lögheimili í Hrísey fái helmingsafslátt af ferðum milli lands og eyjar frá Vegagerðinni og Akureyrarbær veitir fargjaldastyrki sem dekki hinn helming ferðarinnar. Þannig að íbúar greiði ekki fyrir ferðir á milli á meðan áætlun er í gangi.

Síðasta ferð út í eyju er kl. 21.30, en upphringiferðin er í boði kl. 23.20. Gangi hugmyndir um nýja úrfærslu á þeirri ferð eftir lækkar kostnaður þeirra Hríseyinga sem nýta sér hana verulega miðað við fyrri áform. „Þetta verður mun lægra gjald sem ég vona að fólk verði sátt við,“ segir Hilmar.

Nýjast