Hugsandi börn í samfélagi samræðunnar

Ingi Jóhann Friðjónsson leikskólastjóri
Ingi Jóhann Friðjónsson leikskólastjóri

„Í stuttu máli geta börn stundað heimspeki en það fer vissulega eftir því hvernig hugtakið heimspeki er skilgreint,“ segir Ingi Jóhann Friðjónsson aðstoðarleikskólastjóri, sem rannsakar notkun heimspeki í leikskólum.

Hann lýsir því hvernig hann fann köllun sína til að verða leikskólakennari eftir að hafa byrjað að starfa í leikskóla. „Ég fann mjög fljótlega eftir að ég byrjaði að vinna í leikskóla að þetta væri það sem ég vildi gera.“ Að loknu BA námi í heimspeki skráði hann sig því í kennslufræði við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og sér ekki eftir því. „Námið var ótrúlega gefandi og í góðu umhverfi með einstaklega góða kennara og námsfélaga.“

Ingi Jóhann sinnir einnig stundakennslu við skólann og kennir þar meðal annars í námskeiðinu siðfræði, hugmyndir og skólar, þar sem hann kynnir til leiks barnaheimspeki og segir það mikil forréttindi að fá að kenna verðandi kennurum.

Þríþætt rannsókn - Barnaheimspeki sem verkfæri fyrir leikskólastarf

Ingi Jóhann og Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor emeritus við Hug- og félagsvísindasvið, skrifuðu um daginn grein upp úr rannsókn þeirra. Markmið rannsóknarinnar var þríþætt: að greina hugmyndir barnaheimspekinnar, velta fyrir sér hvort hún geti talist raunveruleg heimspeki og kanna gagnsemi hennar í tengslum við markmið Aðalnámskrár leikskóla.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að barnaheimspeki stuðli að sjálfstæði, lýðræði og efli rödd barna í samfélaginu. „Barnaheimspeki styður rödd barna, undirbýr þau fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og stuðlar að æðri hugsun,“ segir Ingi Jóhann.

Heimspekin er alls staðar

Í leikskólanum þar sem Ingi Jóhann starfar er barnaheimspeki rauður þráður í starfinu. Hann lýsir því hvernig heimspekin er ekki aðskilin fræðigrein heldur samþættur hluti af samskiptum og leik barna og fullorðinna.

„Við leikum, tölum og hugsum saman og höfum gagn og gaman af,“ útskýrir hann og bætir við að mikilvægt sé að „horfa á barnið sem virkan hugsuð í sinni þekkingarleit og að kennari gegni lykilhlutverki í því að undrast með börnunum þegar heimspekilegar hugmyndir eða vangaveltur koma fram og ýta þannig undir frekari rannsóknarvinnu.“

Þá hafa heimspekilegar samræður margvíslegan ávinning fyrir börn. „Þau bæta við sig orðaforða, þau læra að draga ályktanir af orðum og skoðunum annarra, þau læra að hlusta á aðra og setja fram eigin skoðanir,“ segir Ingi Jóhann.

Foreldrar geta einnig tileinkað sér hugsjónir barnaheimspekinnar. Það krefst ekki sérfræðikunnáttu heldur einlægrar forvitni og þátttöku. „Þetta snýst allt um hvernig brugðist er við vangaveltum barna, til dæmis hvort þau séu hvött áfram til að leita svara og rannsaka hlutina frekar eða sé lokað á hugmyndir þeirra og spuna. Þá má ekki vanmeta mikilvægi samræðunnar í daglegu lífi. Að börn og fullorðnir velti fyrir sér hlutunum frá mörgum hliðum og gefi sér tíma í þessa gæðastund,“ segir Ingi Jóhann jafnframt.

Samræðusamfélagið, nútíminn og framtíðin

Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að heimspekileg samræða hefur jákvæð áhrif á læsi, auki rökleikni og skapandi hugsun. Þá talar Ingi Jóhann um hvernig Matthew Lipman, frumkvöðull barnaheimspekinnar, telur heimspekilegar samræður vera kjarnann í menntun, því þær eru best til þess fallnar að „kenna“ nemendum að hugsa innan skólakerfisins. Í slíkum samræðum taka nemendur virkan þátt, læra hver af öðrum og eru þátttakendur í samfélaginu.

„Slíkt samfélag kallar Lipman samræðusamfélag og þar er stefnt að því að nemendur læri á eigin hugsunarferla og að hugsa gagnrýnið,“ segir Ingi Jóhann og bætir við: „Það hefur alltaf verið mikilvægt að efla gagnrýna hugsun en kannski ekki síst í dag þar sem í daglegu lífi er mikið af upplýsingum sem við þurfum að meta og aldrei hefur verið auðveldara að nálgast gögn, en á sama tíma er mikið af röngum upplýsingum og það virðist nokkuð auðvelt að hafa áhrif á skoðanir almennings til dæmis með samfélagsmiðlum. Með tilkomu gervigreindar eykst upplýsingaóreiðan enn frekar og ekki er allt sem sýnist. Það er því vert að íhuga alvarlega hvort að efla þurfi heimspekikennslu í formi samræðna á öllum skólastigum til að undirbúa nemendur til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.“

Nýjast