Einn af hverjum tíu í hættu að þróa með sér kulnun í foreldrahlutverki
Eitt af hverjum tíu foreldrum sem tóku þátt í rannsókn Helgu Sifjar Pétursdóttir iðjuþjálfa eiga á hættu að þróa með sér eða vera að glíma við kulnun í foreldrahlutverki. Hægt er að vinna sig út úr því ástandi en það er engin ein leið sem hentar öllum þar sem aðstæður eru ólíkar milli fjölskyldna.
Helga Sif er iðjuþjálfi frá Háskólanum á Akureyri og á og rekur stofuna Ylju, endurhæfingu og ráðgjöf. Hún deilir húsnæði með Sjúkraþjálfun Akureyrar, á neðstu hæð í Sunnuhlíð 12, þar sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands er til húsa. Í meistaranámi sínu í iðjuþjálfun beindi hún sjónun að kulnun og býr yfir sérþekkingu á því sviði.
Helga er þjónustuaðili hjá VIRK, þannig að þeir sem eru í starfsendurhæfingu á vegum þess úrræðis geta leitað til hennar. Hver sem er getur einnig leitað eftir þjónustu hennar og eru í boði viðtöl, ráðgjöf, íhlutun í sal, mat á skynúrvinnslu og greining og meðferð á kulnun í foreldrahlutverki. Helga veitir bæði börnum og fullorðnum þjónustu og er hún ýmist veitt á staðnum eða með fjarþjónustu.
Auknar rannsóknir á liðnum árum
Hugtakið kulnun í foreldrahlutverki er að sögn Helgu frekar nýlegt, þó svo að fyrstu textar þar sem því er lýst séu frá árinu 1983. „Innan rannsóknarsamfélagsins var farið að skoða þetta af æ meiri krafti fyrir um 7 til 8 árum síðan og margar góðar og merkar rannsóknir eru til sem virkilegt gott er að leita í,“ segir Helga. „Í mínu fyrsta verkefni í meistaranáminu fór ég að leita eftir rannsóknum um kulnun í starfi og starfsendurhæfingu og rakst þá á umfjöllun um kulnun í foreldrahlutverki (parental burnout). Þá varð ekki aftur snúið, áhuginn fór allur í þá átt og má segja að öll mín verkefni í náminu hafi snúist um slíka kulnun,“ segir hún.
Lokaverkefni hennar snéri að því að þýða, staðfæra og gera réttmætisathugun á matstæki sem metur kulnun í foreldrahlutverkinu. Rannsókn Helgu náði til 1.110 foreldra og var að hluta til gerð til að kanna réttmæti matstækisins. Niðurstöður leiddu í ljós að að matstækið sem notað er við slíkar rannsóknir, metur það sem því er ætlað að meta. Helga hefur einnig tekið sérstakt fagnámskeið hjá höfundum matstækisins þar sem farið var yfir hvernig greina megi kulnun í foreldrahlutverkinu og hvaða þætti þarf að hafa í huga við meðferð á slíkri kulnun.
Margir upplifa örmögnun
Rannsóknir benda að sögn Helgu til þess að kulnun í foreldrahlutverki byggist á fjórum víddum, þ.e. líkamlegri og andlegri örmögnun, að upplifa litla gleði í foreldrahlutverkinu, tilfinningalegri fjarlægð gagnvart barni/börnum sínum og ósamræmi á milli þess foreldris sem það var og er nú. Sú fyrsta, örmögnun lýsir sér þannig að foreldrar upplifa sjúklega þreytu í kjölfar langvarandi streitu og álags í foreldrahlutverki. „Það er einstaklingsbundið hvað hver og einn þolir mikla streitu áður en líkamsstarfsemi fer að skerðast, en á endanum geta allir farið yfir mörkin og finna fyrir líkamlegum og andlegum einkennum. Hinar víddirnar birtast oft í kjölfarið á því að streitukerfið hefur verið í stöðugri keyrslu og mikið um þreytu, pirring og orkuleysi. Foreldrið getur þá farið að upplifa minni gleði í hlutverki sínu sem foreldri, uppsöfnuð streita og þreyta í líkamanum leiðir til þess að það sem áður vakti gleði kallar fram neikvæðar tilfinningar, gremju og reiði sem dæmi. Einfaldir hlutir geta hæglega orðið yfirþyrmandi. Margir finna fyrir því að þeir ráði hreinlega ekki lengur við hlutverk sitt sem foreldri,“ segir Helga.
Þegar gleðin fjarar smám saman út og hverfur fjarlægjast foreldrar barnið sitt og segir Helga að margir upplifi að þeir sér á eins konar sjálfsstýringu, sinni ákveðnum nauðsynlegum hlutum en nái ekki að gefa neitt af sér. „Það finna margir foreldrar fyrir skömm yfir þessari stöðu, ná ekki að sinna sínu hlutverk og tækla aðstæður dagslegs lífs. Þar kemur síðasta víddin inn, að foreldrið finnur að það er ekki lengur það foreldri sem það var né vill vera, það hefur orðið breyting á hegðun þess gagnvart barni sínu. Í alvarlegustu tilvikunum vanrækja foreldrar þarfir barnsins og leggja jafnvel á það hendur,“ segir hún.
Ýmsir þættir hafa áhrif
Rannsókn Helgu sem náði til 1.100 manns leiddi í ljós að einn af hverjum tíu þátttakendum var í hættu á að þróa með sér kulnun eða þegar farin að upplifa hana. Þættir sem hafa áhrif varðandi kulnun í foreldrahlutverki eru m.a. að eiga þrjú eða fleiri börn, upplifa lítinn stuðning í foreldrahlutverkinu, hafa litla trú á eigin getu, eiga börn með sérþarfir og einnig ef foreldrið sjálft er með greiningu eins og til að mynda ADHD eða einhverfu. Að vera einstætt foreldri, vera á örorku eða á endurhæfingarlífeyri skipti líka máli.
Helga segir meðferð ganga út á að taka ítarlegt viðtal og fá greinargóða mynd að aðstæðum og lífi viðkomandi. Þá er matstæki sem metur kulnun lagt fyrir og einnig er skoðað hvað þættir ýta undir streitu og hvað þættir gætu komið þar til hjálpar. „Við reynum að nýta þær bjargir sem eru til staðar betur til að sporna við frekari streitu. Við skoðum leiðir til íhlutunar sem eflt geta foreldrafærni, vinnum með tilfinningarvanda og að setja mörk sem dæmi, en sem betur fer er hægt að vinna sig út úr kulnun í foreldrahlutverki en engin ein leið sem hentar öllum.“