Leigusamningi Norðurhjálpar sagt upp Hafa deilt út 26 milljónum til fólks sem þarf aðstoð
„Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir okkur,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir ein þeirra kvenna sem standa að Norðurhjálp, nytjamarkaði sem hefur verið til húsa við Dalsbraut á Akureyri. Ljóst er að rýma þarf markaðinn fyrir lok febrúarmánaðar næstkomandi en leigusamningi Norðurhjálpar hefur verið sagt upp. Öll innkoma af markaðnum, ef frá er talin leiga fyrir húsnæði, hefur farið í að rétta þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu aðstoð. Á liðnu ári veitti Norðurhjálp alls 26 milljónir króna til fólks á Norðurlandi.
Norðurhjálp hóf starfsemi í húsnæði fyrrum Hjálpræðishersins við Hvannavelli á Akureyri, en til stendur að rífa það húsnæði. Leigusamningur var til 1. apríl á liðnu ári og fór markaðurinn út í lok mars. Þá hafði náðst samningur við eigendur húsnæðis við Dalsbraut og með góðri aðstoð sjálfboðaliða og fyrirtækja á svæðinu gengu flutningar vel. „Húsnæðið var hrátt og við lögðum mikla vinnu í að búa það sem best úr garði, hér var allt tekið í gegn, raflagnir m.a. og það var múrað og málað og við bara lögðum metnað í að gera húsnæðið hugggulegt og skapa gott andrúmsloft,“ segir Sæunn. Húsnæðið við Dalsbraut er um 400 fermetrar og má ekki vera minna. „Við hefðum auðvitað ekki lagt svona mikið í þetta, vinnu og kostnað ef við hefðu vitað hversu skamman tíma við höfðum, það er alveg ljóst.“
Norðurhjálp hefur starfað við Dalbraut frá því í júní í fyrrasumar, en leigusamningi hefur nú verið sagt upp og ljóst starfsemi þess er i uppnámi
Fólk hugsar hlýlega til okkar
Það markmið hefur tekist með ágætum því gestafjöldi hefur farið vaxandi á liðnum mánuðum og eru margir sem koma við, skoða úrvalið og kaupa varning en úrvalið er afar fjölbreytt. „Við fáum mikið af gjöfum, fólk í okkar nær samfélagi hugsar hlýlega til okkar og þann tíma sem við höfum starfað hefur okkur borist mikið af allra handa varningi, allt frá stórum húsgögnum, raftækjum, búsáhöldum, bókum og fatnaði svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún. Ávallt er í boði kaffi og eitthvað með því í kaffihorni og margir koma til að fá sér kaffisopa og hitta fólk.
Umfang markaðarins hefur vaxið
Fjórar konur standa að Norðurhjálp, auk Sæunnar þær Anna Jóna Vigfúsdóttir, Guðbjörg Thorsen og Stefanía Fjóla Elísdóttir. Með þeim starfar öflugur flokkur sjálfboðaliða sem starfa við markaðinn og segir Sæunn þá ómetanlega viðbót fyrir starfsemi markaðarins. „Við höfum á að skipa frábærum sjálfboðaliðum sem leggja sig alla fram og án þeirra væri þetta vart gerlegt, því umfang markaðarins hefur vaxið mikið frá því við byrjuðum. Fólk er ansi góðviljað og vill gefa okkur alls konar varning sem þarf að flokka og búa undir sölu, þetta er mikil vinna. Við erum auðvitað líka mjög þakklátar öllu því fólki sem kemur til okkar og verslar, því þannig öflum við okkar fjár sem við síðan deilum út í samfélagið til þeirra sem minna mega sín,“ segir Sæunn.
Hafa deilt út 26 milljónum
Heildarupphæðin sem fólk fékk frá Norðurhjálp í formi inneignarkorta og eða í mat eða fatnaði, nam 26 milljónum króna árið 2024 og segir Sæunn að þær stöllur séu þakklátar fyrir hversu vel hafi gengið. „Við brennum fyrir að leggja okkar af mörkum til samfélagsins og höfum sýnt og sannað að það hefur tekist ljómandi vel. Ekki síður eru okkar skjólstæðingar þakklátir því það er greinilegt að mjög margir ná ekki endum saman á milli mánaðamóta. Efnahagsástandið hefur ekki verið að hjálpa, leiguverð hefur hækkað og vextir verið í hæstu hæðum þó sem betur fer sjáist tímabær merki um lækkun þar, en matarkarfan hefur líka farið upp úr öllu valdi. Samanlagt gerir þetta að verkum að fólk má hafa sig allt við að lifa mánuðinn af og sumir ná því ekki og leita til okkar eða annarra sem rétta hjálparhönd,“ segir Sæunn.
Mikil ásók í janúar
Nefnir hún að nú á fyrstu dögum janúar hafi verið mikil ásókn í aðstoð og langt til mánaðamóta. Það sýni best hver neyðin er. „Það kom mér á óvart hversu margt vinnandi fólk leitar til okkar, ég átti fyrir fram von á að stærstu hóparnir væru einstæðir foreldrar og öryrkjar,“ segir hún. „Það er greinilegt að dýrtíðin er þannig að margt láglaunafólk kemst ekki í gegnum mánuðinn án þess að fá smá viðbót.“
Sæunn segir bagalegt að sjá þurfa að pakka markaðnum saman aftur og leita að hentugu húsnæði, en við því sé lítið að gera. „Ég er ekki beint bjartsýn á að við finnum hentugt húsnæði fyrir markaðinn en vongóð skulum við segja. Við þiggjum allar ábendingar með þökkum.“