Skuggabani er kominn á kreik

Tonnatak eru, f.v.: Daníel Starrason - gítar, Kristján Pétur Sigurðsson - söngur, Haukur Pálmason - …
Tonnatak eru, f.v.: Daníel Starrason - gítar, Kristján Pétur Sigurðsson - söngur, Haukur Pálmason - trommur og Þorsteinn Gíslason - bassi. Mynd/aðsend.

Sólin er lágt á lofti en Skuggabani er kominn á kreik. Skuggabani er nýjasta afurð hljómsveitarinnar Tonnataks sem hefur nokkuð jafnt og þétt komið út nýjum lögum á undanförnum árum og árið 2025 verður ekki skilið útundan.

Þó hljómsveitin forðist að skilgreina tónlist sína nánar en sem pönk og ræflarokk, þá verður ekki annað hægt að segja að í þessu lagi gæti öflugra þungarokksáhrifa. Frumdrög lagsins urðu til hjá bassaleikara sveitarinnar, Þorsteini Gíslasyni og í ársbyrjun 2022 varð til texti úr smiðju Kristjáns Péturs Sigurðssonar og lagið fór að mótast. Með þrotlausum æfingum fór lagið að slípast til og varð svo að það var flutt á öllum tónleikum hljómsveitarinnar á árinu 2024. Að lokum þótti lagið fullæft og var tekið upp í desember það ár.

Lagið er enn ein varðan í vegferð hljómsveitarinnar að láta þann draum rætast að gefa út hljómplötu, jafnvel á árinu 2025. Hljómsveitin var stofnuð árið 2015 og fagnar því 10 ára afmæli í ár, en hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2020.

Tonnatak eru:
Kristján Pétur Sigurðsson - söngur
Þorsteinn Gíslason - bassi
Haukur Pálmason - trommur

Daníel Starrason - gítar


Upptökustjórn og hljóðblöndun var í höndum Hauks Pálmasonar. Kynningarefni gerðu Daníel Starrason, Sindri Swan og Elvar Freyr Pálsson.

Nýjast